Neytendur

„Sporttöppum“ aftur komið fyrir

Atli Ísleifsson skrifar
Sólrún Þórðardóttir er vörumerkjastjóri Powerade á Íslandi.
Sólrún Þórðardóttir er vörumerkjastjóri Powerade á Íslandi.

Svokölluðum „sporttöppum“ hefur aftur verið komið fyrir á flöskum íþróttadrykkjarins Powerade hér á landi. Undanfarna mánuði hefur einungis hægt að drykkinn með flötum töppum vegna breytinga á reglugerð.

Í tilkynningu frá Coca Cola Europacific Partners segir að umrædd reglugerð hafi krafist þess að allir plasttappar á drykkjarflöskum verði áfastir með það að markmiði að draga úr plastmengun.

„Í kjölfarið þurfti að finna nýja lausn fyrir Powerade-tappana þar sem fyrri áföst sporttappahönnun stóðst ekki ströngustu kröfur um öryggi og gæði,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Sólrúnu Þórðardóttur, vörumerkjastjóra Powerade á Íslandi, að félaginu þyki mjög vænt um hve margir hafi sýnt þessari tímabundnu lausn skilning.

„Við vitum að sporttappinn skiptir neytendur máli, sérstaklega fyrir þá sem eru virkir í íþróttum eða hreyfingu. Þess vegna erum við einstaklega ánægð með að geta nú boðið aftur upp á lausn sem er bæði þægileg og umhverfisvæn,“ segir Sólrún.

Fram kemur í tilkynningunni að hin nýja sporttappalausn hafi þegar verið samþykkt til notkunar og sé þegar komin í dreifingu. Hún uppfylli bæði evrópskar reglugerðir og þær kröfur sem Coca-Cola á Íslandi geri til gæða, öryggis og notendaupplifunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×