Þann 15. maí síðastliðinn undirrituðu Skel og Samkaup viljayfirlýsingu vegna samruna Samkaupa og Orkunnar IS ehf., Löðurs ehf., Heimkaupa ehf. og Lyfjavals ehf.
Þá var ætlaður hlutur Skeljar í sameinuðu félagi 42,7 prósent en tekið var fram að skiptihlutföll yrðu leiðrétt út frá stöðu handbærs fjár, vaxtaberandi skulda og nettó stöðu veltufjármuna miðað við viðmiðunardag.

Samkaup enn með rúmlega helming
Samkvæmt tilkynnningu Skeljar til Kauphallar segir að frá undirritun viljayfirlýsingar hafi ráðgjafar samrunaaðila unnið að fjárhagslegri, skattalegri og lögfræðilegri áreiðanleikakönnunum á Samkaupum og samrunafélögunum.
Niðurstöður áreiðanleikakannanna liggi fyrir og undirritaður hafi verið viðauki við viljayfirlýsingu aðila frá 15. maí. Viljayfirlýsing aðila sé efnislega óbreytt að öðru leyti en að nú er gert ráð fyrir því að skiptihlutföll í samrunanum verði þannig að hluthafar Samkaupa fái í sinn hlut 52,5 prósent í hinu sameinaða félagi og hluthafar Heimkaupa 47,5 prósent. Áætlaður hlutur Skeljar í hinu sameinaða félagi verði 47 prósent en fyrir eigi Skel fimm prósent hlut í Samkaupum í gegnum Eignarhaldsfélagið Bjarma ehf.
Greiða úr útistandandi málum á næstu dögum
Aðilar vinni nú að því að ná saman um útistandandi efnisleg atriði í samrunasamningi en stefnt sé að því að greiða úr þeim á næstu dögum. Skel muni greina frekar frá framvindu samningaviðræðna eftir því sem tilefni er til.