Skoðun

Þarf rann­sóknir á kynhlutlausu máli?

Ásdís Bergþórsdóttir skrifar

Margt, mikið og misgáfulegt hefur verið skrifað um kynhlutlaust mál í blöðum. Nú nýlega hefur verið umfjöllun á visir.is um notkun á hvorugkyni fleirtölu þegar merkingin er almenn og vísar ekki í afmarkaðan hóp. Ég veit ekki hvaða orð ég á að nota yfir þetta fyrirbæri en til einföldunar mun ég kalla þetta „ómarkað kynhlutlaust mál“ í þessari grein. Einhver málfræðingurinn mun svo finna betra orð yfir þetta. Þetta er þegar fólk segir „sum eru“ og „öll eru“ þar sem hefðbundið er að segja „sumir eru“ og „allir eru“. Einstaka aðilar reyna stundum að hafa fornöfn sem venja er að hafa í karlkyni eintölu í fleirtölu hvorugkyns („engin“ í staðin fyrir „enginn“) en ég hef ekki tekið eftir því að það sé almennt. Það sem mér finnst vanta í umfjöllun um ómarkað kynhlutlaust mál er lýsing á því hvernig þessi notkun birtist í riti og ræðu hjá þeim sem hafa tileinkað sér það.

Áður en ég vík að því vil ég hins vegar lýsa því aðeins hvernig ég nota sögnina „að hlakka“. Ég er að sjálfsögðu vel uppalin kona og því segi „ég, þú, hann, hún, hán, okkur, þið og þau hlakka til“. Ég hef lært þetta samviskusamlega utan að. Ég veit sem sagt (meðvitað) að sögnin að hlakka á taka með sér nefnifall og ræð vel við að hafa nefnifall í rituðu máli því ég les einfaldlega textann yfir og passa að þar sé notað nefnifall. Ég myndi samt sem áður segja strákunum hlakkar (ekki strákarnir hlakka) og eftirvæntingarfullum hlakkar til (ekki eftirvæntingarfullir hlakkar til). Með öðrum orðum málkerfi mitt (sem er ómeðvitað) geymir þær upplýsingar að sögnin að hlakka tekur með sér þágufall en ég hef lært utan að nokkrar undantekningar á þessu sem snúa aðallega að persónufornöfnum.

Í íslensku eins og flestum (ef ekki öllum) málum er munur á ritmáli og talmáli. Sá munur skapast af því að við höfum meiri tíma til að skoða hvað við skrifum og leiðrétta það en þegar við tölum. Það ætti að vera nokkuð einfalt fyrir fólk sem þarf að skrifa eða lesa upp skrifaðan texta (eins og fréttamenn RÚV) að nota kynhlutlaust mál. Það ætti bara að þurfa að lesa textann vel yfir og skipta út fyrir kynhlutlaus orð. Það er erfiðara þegar fólk er að tala. Það er erfitt að ritskoða stanslaust það sem maður er að fara að segja og spyrja sjálfan sig spurninga eins og ætla ég að nota fornafn eða lýsingarorð í fleirtölu í því sem ég ætla að segja og vísar það fornafn til óþekktra aðila eða þekktra aðila.

Í rituðu máli sé ég oft „öll eru“ og álíka frasa en heyri það sjaldan í samskiptum mínum við annað fólk. Það er samt vafasamt að taka mark á minni upplifun því hún er að sjálfsögðu einstök og bundin við mig. Því er betra að vísa í skráðrar heimildir.

Þá er komið að aðalatriðinu. Um daginn áskotnaðist mér blaðið, Skólavarðan. Þar sá ég viðtal sem vakti athygli mína. Þær sem talað var við voru að temja sér kynhlutlaust tungumál og voru jafnvel að nota fornöfn í hvorugkyni fleirtölu („engin okkar eru eins“) til að ná fram kynhlutleysi en ekki var það algild notkun (sbr. „ekki einhver einn“). Önnur konan notaði greinilega mjög oft kynhlutlaust mál („sum starfa“, „öll fái“) en sagði samt „allir eru velkomnir“ á einum stað. Það er í samræmi við tilfinningu mína um að þeir sem hafi tamið sér kynhlutlaust mál gleymi sér oft. Það er í sjálfu sér eðlilegt þegar fólk er að temja sér nýtt tungutak og ekkert við það að athuga.

Það sem vakti, aftur á móti, mikla athygli mína var að umrædd kona sagði: „Börnin gera sér grein fyrir að það eru ekki allir eins, og það eiga ekki allir að vera eins, en það geta allir verið vinir. Við erum öll jöfn.“ Það er alveg ljóst að ef sömu reglur gilda um hefðbundið mál og í kynhlutlausu máli þá ætti að segja: „að það eru ekki öll eins“ o.s.fr.

Ég áttaði mig að sjálfsögðu á því að mögulega væri þetta bara mismæli. Ég ákvað að skoða samt málið og leitaði á Google að „það eru öll sem“ og „það eru allir sem“. Ástæðan fyrir því að ég setti „sem“ sem hluta af leit var að annars hefði ég fengið niðurstöður eins og „það eru allir bílar/hestar/menn“ en það var ekki það sem ég var að leita að. Ég var að leita að tilvísun í almennan hóp.

Leitin „það eru öll sem“ skilaði ekki neinni einustu niðurstöðu og „það eru ekki öll sem“ skilaði tíu niðurstöðum. Sambærilegar leitir með „allir“ skiluðu yfir 25 þúsund niðurstöðum hvor. Af þessum tíu niðurstöðum voru fimm sem vísuðu í hvorugkyns nafnorð fyrr í umfjölluninni. Það voru þá fimm niðurstöður sem vísuðu í „öll“ sem ómarkað mál. Af þessu fæ ég ekki séð annað en að „það eru öll sem“ sé óvirkt í málinu og að „það eru ekki öll sem“ sé mjög sjaldan notað. Það er sérstakt því sama setningaskipan er mjög algeng í hefðbundnu máli með „allir“. Þetta þýðir að ekki er hægt að lýsa kynhlutlausu máli sem sambærilegu hefðbundnu máli með allar sömu reglur og hefðbundið mál, bara með annað ómarkað kyn. Af hverju stafar þessi munur?

Ég ætla að koma með eina mögulega skýringu á þessu. Í umfjöllun um frestun óákveðins frumlags í Setningafræði eftir Eirík Rögnvaldsson og Höskuld Þráinsson á vef https://ait.arnastofnun.is/grein.php?id=908 segir: „Þegar frumlag er óákveðið, einkum nafnorð án greinis eða óákveðið fornafn, er því iðulega "frestað" í yfirborðsgerð setninga, þannig að það stendur á eftir sögninni, þótt upphafsstaður frumlags í grunnformi eða djúpgerð sé alltaf framan sagnar. Þá er leppurinn (gervifrumlagið) það oftast sett í frumlagssætið í staðinn. Þannig er t.d. sjaldnast sagt Gestir eru komnir heldur Það eru komnir gestir, og í staðinn fyrir Einhver hefur verið hérna er oft sagt Það hefur einhver verið hérna.“

Eins og sést af þessu er djúpgerð setningarinnar „Það eru ekki allir eins“ raunverulega „Allir eru ekki eins“, ekki „Öll eru ekki eins“. Það má því setja fram tilgátu um að í málkerfi fólks sem talar kynhlutlaust mál sé karlkynið valið í djúpgerð, breytingin fyrir kynhlutleysi er gerð síðast þegar yfirborðsgerð er komin fram og að þessi skönnun klikki mjög oft í þessari setningagerð. Það sé í raun skannað fyrir frumlagi setningarinnar og þegar frumlagið er „það“ þá er þarf ekki skipta út neinu. Þetta sé í raun svipað og þegar ég skanna fyrir persónufornöfnum fremst í setningu með sögnina að hlakka.

Ef kynhlutlaust tungumál virkar sem skönnun á yfirborðsgerð þá er það mikilvægt. Því ef djúpgerð er eins hjá öllum málnotendum og breytingar eru bara gerðar með yfirborðsskönnun og útskiptingu á óæskilegum orðum þá hefur ekki orðið mikil grundvallarbreyting á málinu. Sumir leiðrétta einfaldlega yfirborðsgerð máls síns. Slíkar leiðréttingar ganga upp í ritmáli og einföldum setningum í talmáli en það er ólíklegt að þær gangi upp í flóknum setningum í talmáli.

En það vakna upp spurningar við þessa tilgátu. Af hverju eru til örfá dæmi um „það eru ekki öll sem“? Finnst okkur eðlilegra að hafa neitun þarna?

Það eru til fjölmörg dæmi til um orðfærið „það eru mörg sem“, ólíkt „það eru öll sem“. Orðið „margur“ er ekki fornafn heldur lýsingarorð. Skiptir orðflokkur máli þarna eða fellir þetta dæmi tilgátuna?

Það sem er kannski merkilegast er spurningin af hverju finnst ekki „það eru ekki öll sem“ við leit? Það ætti að vera hægt að segja bæði í hefðbundnu og kynhlutlausu máli (af því það vísar í ákveðinn hóp): „Krakkarnir eru spennt fyrir partíinu. Það eru öll sem ætla að mæta“. Ég finn ekki dæmi um slíka eða sambærilega notkun enda hljómar þetta undarlega í mínu eyru. Mér þætti hins vegar ekkert að því að hafa þarna „Það eru mörg sem ætla að mæta“. Er mögulegt að fólk sem er að tileinka sér kynhlutlaust mál læri ákveðna frasa utan en hafi ekki lært „það eru öll sem“ af því að það ert ekki virkt í málinu, ekki einu sinni sem markað mál? Ef um er að ræða lærða frasa hvar í setningamynduninni eru þeir settir inn? Hvað gerist í flóknum setningafærslum? Og hvernig orða þeir sem tala kynhlutlaust mál setninguna „Það eru allir sem ætla að koma“? Mig grunar að það sé: „Þau ætla öll að koma“. Ef svo er þá er kynhlutlaust mál ekki bara hefðbundið mál með útskiptingu á orðum.

Kannski eru vangaveltur mínar barnalegar spurningar manneskju sem kann lítið í málfræði. Það verða málfræðingar að meta. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort ekki þurfi rannsóknir á kynhlutlausu máli, djúpgerð og yfirborðsgerð þess og fylgjast með því hvernig það mál þróast. Mögulega getur það kennt okkur eitthvað um málbreytingar og eitthvað um hefðbundið mál. Ég kalla því eftir því að einhver málfræðingurinn setjist niður og skoði talmál þeirra sem tala kynhlutlaust tungumál til þess að geta lýst kynhlutlausu tungumáli, ekki í forskrift heldur hvernig það raunverulega virkar hjá þeim eru að temja sér það og hvernig það er öðruvísi en hefðbundið mál. Það er líklegra til að skila nýrri þekkingu en endurtekin skoðanaskipti á réttmæti kynhlutlaus máls.

Höfundur hefur smá áhuga á málfræði.
Skoðun

Sjá meira


×