Upp­gjörið: Stjarnan - Haukar 73 - 64 | Ó­trú­leg endur­koma tryggði Stjörnunni odda­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Haukar réðu afar illa við Deniu Davis-Stewart í dag.
Haukar réðu afar illa við Deniu Davis-Stewart í dag. vísir / PAWEL

Það var allt undir í dag þegar Stjarnan tók á móti Haukum í 8-liða úrslitum Subway-deildar kvenna í dag en Haukar leiddu einvígið 2-1 og gátu því sent Stjörnuna í sumarfrí með sigri.

Gestirnir hófu leikinn á nettri skotsýningu en 18 af 22 stigum liðsins í 1. leikhluta komu úr þristum. Skotnýtningin í hæstu hæðum meðan Stjörnunni gekk illa að koma boltanum ofan í körfuna. Kolbrún María náði þó að skora þrjú síðustu stig leikhlutans og staðan 14-22 að honum loknum.

Eftir að fimm fyrstu stig 2. leikhluta komu frá Stjörnunni má segja að sóknarleikur þeirra hafi frosið. Staðan breyttist úr 19-22 í 20-35 á um það bil sex mínútum og útlitið ekki bjart fyrir heimakonur. Ekki bætti úr skák að Ísold Sævarsdóttir sneri sig illa og þurfti að yfirgefa völlinn, en hún fór fyrir endurkomu liðsins í síðasta leik.

Staðan 26-41 í hálfleik. Það hafði þá aðeins dregið úr ótrúlegri hittni gestanna fyrir utan en Stjarnan var heilt yfir að hitta mjög illa í fyrri hálfleik. 21 prósent alls og aðeins tveir þristar ofan í í 13 tilraunum.

Stjarnan þurfti í raun á einhverskonar kraftaverki að halda í seinni hálfleik. Það kraftaverk virtist mögulega vera á leiðinni þegar Ísold minnkaði muninn í sex stig en hún sneri aftur inn á með stóra spelku á ökklanum og virtist fær í flestan sjó.

Haukar svöruðu þessu áhlaupi með því að skora átta síðustu stigin í leikhlutanum og fóru þar langleiðina með að ganga frá leiknum en þó ekki nógu langt. Haukar komust í 49-61 í upphafi 4. leikhluta en þá komu 16 stig frá Stjörnunni í röð og staðan orðin 65-61.

Ótrúleg endurkoma hjá Stjörnunni sem skrifast fyrst og fremst á varnarleikinn enda skotnýting liðsins hreinlega mjög slök í þessum leik. Það vantaði þó ekkert upp á viljann og trúna í dag og hún á að víst til að flytja fjöll þegar mikið liggur við.

Lokatölur í Garðabæ 73-64 og við erum á leiðinni í oddaleik!

Atvik leiksins

Þegar fyrri hálfleikur var að líða undir lok sneri fyrirliða Stjörnunnar, Ísold Sævarsdóttir, sig ansi illa og virtist mögulega vera að ljúka leik. Stjarnan var þá 14 stigum undir og farið að syrta í álinn.

Hún lét þessi meiðsli þó ekki stoppa sig, lék alls 32 mínútur og átti sinn drjúga part í að keyra Hauka í kaf undir lokin.

Stjörnur og skúrkar

Denia Davis-Stewart var frábær fyrir Stjörnuna á lokakaflanum en liðsfélagar hennar leituðu mikið að henni undir körfunni þar sem hún lét til sín taka. 24 stig frá henni og 18 fráköst að auki. Sannkölluð tröllatvenna.

Kolbrún María Ármannsdóttir lék einnig til sín taka á lokakaflanum og hrökk loksins í gang. Setti niður stóra þrista og endaði með 22 stig, fimm fráköst og fjóra stolna bolta.

Skúrkur leiksins er Keira Robinson sem hvarf algjörlega í seinni hálfleik. Eftir að hafa sett 17 stig í fyrri hálfleik skoraði hún úr einu víti í seinni og endaði með 18 stig alls.

Haukar settu niður sex þrista í 1. leikhluta úr átta skotum, en bættu svo aðeins þremur við í næstu þremur leikhlutum.

Dómarar

Dómarar dagsins voru þeir Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Aron Rúnarsson. Sutðningsmenn Stjörnunnar tuðuðu óþolandi mikið um skref en þeir ættu sennilega að fara aðeins yfir uppfærðar reglur um skref. Persónulega veit blaðamaður varla lengur hvað er skref og hvað ekki, og því ekki skrítið að áhorfendur séu ruglaðir í ríminu.

Annars ágætlega dæmdur leikur hjá tríóinu og lítið út á þá að setja. Arnar Guðjónsson fékk eina tæknivillu sem var að mínu hlutlausa mati ekki verðskulduð, en þegar menn tuða mikið þá eiga tæknivillur til að tínast inn.

Stemming og umgjörð

Þegar blaðamaður mætti í Garðabæinn tæpum klukkutíma fyrir leik var varla hægt að fá bílastæði við Umhyggjuhöllina. En þegar inn í sal var komið var varla sála sjáanleg. Það er mikið um að vera í boltaíþróttum á vorin en TM mótið er í fullum gangi í Garðabænum á sama tíma og þessi stórleikur.

Það rættist þó úr mætingunni þegar nær dró leiknum og þegar Stjörnukonur voru kynntar til leiks kom heill herskari af sjö ára iðkendum sem peppaði þær út á gólfið. Í hálfleik fengu yngri flokkar Stjörnunnar sem fóru frægðarför á Scania-cup í Svíþjóð svo heiðurskynningar og lófatak.

Þokkalegasta mæting og stemming í Umhyggjuhöllinni í dag en betur má ef duga skal fyrir oddaleikinn á miðvikudag.

Arnar Guðjónsson: „Svolítið passífar í öllu í fyrri hálfleik og þær gengu svolítið á lagið með það“

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, var afar ánægður með sigurinnVísir/Pawel Cieslikiewicz

Í síðasta leik þegar þessi lið mættust ætlaði Arnar að fara að setja sína sterkustu leikmenn á bekkinn áður en endurkoman hófst. Nú var það auðvitað aldrei í kortunum enda tímabilið undir ef leikurinn tapaðist.

„Síðasti séns. Við náðum að spýta aðeins í lófana og sigla þessu heim í restina en þetta var torsótt.“

Þessi sigur var sannarlega torsóttur sóknarlega til að byrja með, en ákefðin var til staðar í seinni hálfleik og Stjörnukonur eru ekki þekktar fyrir að gefast upp.

„Þær gera lítið af því en við vorum samt sem áður svolítið passífar í öllu í fyrri hálfleik og þær gengu svolítið á lagið með það.“

Keira Robinson sá ekki til sólar í seinni hálfleik en Arnar kunni engar skýringar á því.

„Við fókusuðum ekkert meira á hana í seinni hálfleik. Við ætluðum líka að reyna að stoppa hana í fyrri hálfleik. Hún er bara ógeðslega góð. Setti mikið af erfiðum skotum. Kannski fékk hún færri skot eða eitthvað, ég átta mig bara ekki alveg á því. Við breyttum engu sem sneri að henni.“

Heilt yfir breytti Arnar í raun litlu sem engu í leikskipulaginu.

„Við komum aðeins hærra á völlinn kannski en það skilaði litlu. En við náðum þá kannski að setja aðeins meiri ákefð í varnarleikinn og þurfum að geta gert það á hálfum velli líka.“

Dania Davis-Stewart átti mikinn þátt í sigrinum í dag.

„Hún gerði rosalega vel, sérstaklega fann orku í fjórða leikhluta og við vorum kannski þolinmóðari að senda á hana. Það hjálpaði svolítið og hún átti mjög góðan leik í dag, ásamt mörgum öðrum, það er ekki það, hún gerði mjög vel, bæði í fráköstum og að komast á hringinn og leggja hann í.“

Nú er oddaleikur framundan og Arnar vill fá alla á völlinn.

„Ég ætla að vona að allir sem voru hér í kvöld mæti þar. Mér fannst stemmingin hérna og orkan og lætin rosa skemmtileg. Það hlýtur að verða vel mætt, ég held að þetta sé eini leikurinn á miðvikudaginn. Vonandi bara mæta sem flestir. Það er rosa gaman að spila oddaleiki og upplifunin fyrir alla sem koma að þessu þegar þetta er svona er miklu skemmtilegri.“

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira