Umræðan

Af skatt­lagningar­valdi Seðla­bankans

Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir skrifar

Peningastefnunefnd hélt aukafund þann 2. apríl þar sem ákveðið var að hækka fasta bindiskyldu lánastofnana úr 2% í 3% af bindigrunni. Breytingin tekur gildi þann 21. þessa mánaðar.

Í einföldu máli þýðir þetta að peningamagn í umferð dregst saman og getur aðgerðin því verið liður í baráttunni fyrir verðstöðugleika.

Hefði nefndin ákveðið þetta fyrir einhverju síðan hefði það kannski verið augljósasta niðurstaðan, verðstöðugleikinn væri undir, nú horfir lítið eitt öðruvísi við. Aukafundur hjá nefndinni, tímasetningin, dýr gjaldeyrisforði og fleira þar fram eftir götum.

Skoðum aðeins lög um Seðlabanka Íslands, en þar segir í 9. grein: 

„Ákvarðanir um beitingu stjórntækja bankans í peningamálum, sbr. 10. gr., eru teknar af peningastefnunefnd. Ákvarðanir peningastefnunefndar skulu grundvallast á markmiði um stöðugt verðlag og byggjast á vönduðu mati á ástandi og horfum í efnahagsmálum.“

Kostnaður fjármálafyrirtækja af því að geyma slíka fjárhæð á vaxtalausum reikning Seðlabankans hleypur því á 8 milljörðum króna árlega miðað við núverandi stýrivexti.

Í 10. grein eru verkefni peningastefnunefndar nánar skilgreind, meðal annars er kveðið á um ákvarðanir um vexti til að framfylgja peningastefnunni. Einnig ákvarðanir nefndarinnar um viðskipti við lánastofnanir, bindiskyldu, viðskipti á gjaldeyrismarkaði og viðskipti með verðbréf sem ætlað er að stuðla að því að markmiðum bankans um stöðugt verðlag verði náð.

Augljóst er af lögunum að Peningastefnunefnd getur aðeins tekið ákvarðanir um að beita þessum tækjum bankans sem grundvallast á markmiði hans um stöðugt verðlag.

Að baki ákvörðun nefndarinnar þann 2. apríl liggja aftur á móti engin slík rök, eða í besta falli mjög langsótt.

Í yfirlýsingu nefndarinnar sem birt var í gærmorgun er vísað til þess að:

  • „Grunnforsenda þess að unnt sé að reka sjálfstæða og trúverðuga peningastefnu er að Seðlabanki Íslands búi yfir öflugum gjaldeyrisforða.“
  • „Slíkri tryggingu fylgir hins vegar kostnaður sem eykst eftir því sem vaxtamunur gagnvart útlöndum er meiri. Þessi kostnaður er að mestu leyti borinn af Seðlabankanum en aðrir innlendir haghafar njóta ábatans í formi hagstæðari vaxtakjara á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.“
  • „Ákvörðunin um hækkun bindiskyldunnar er hluti af heildarendurskoðun Seðlabankans á vaxtakjörum sem helstu mótaðilar njóta í bankanum og hefur það að markmiði að dreifa betur kostnaði sem fylgir því að reka sjálfstæða peningastefnu og treysta sjálfbæra fjármögnun gjaldeyrisforða þjóðarinnar.“

Ákvörðun nefndarinnar og meðfylgjandi rökstuðningur fyrir aukinni bindiskyldu, er ekki í anda 9. greinar laga um Seðlabanka Íslands, svo mikið er víst, enda grundvallast hún ekki á markmiði um stöðugt verðlag.

Samtals binda fjármálafyrirtæki um 60 milljarða króna hjá Seðlabankanum í dag. Með breytingu á bindiskyldunni má ætla að sú fjárhæð aukist í 90 milljarða. Kostnaður fjármálafyrirtækja af því að geyma slíka fjárhæð á vaxtalausum reikning Seðlabankans hleypur því á 8 milljörðum króna árlega miðað við núverandi stýrivexti.

Með breytingum sem þessum er einungis verið að fjármagna risa stóran (og vissulega mjög þarfan) gjaldeyrisforða Seðlabankans með dulinni skattheimtu.

Höfundur er hagfræðingur hjá Samtökum atvinnulífsins og stjórnarmaður í Hagsmunafélagi kvenna í hagfræði.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Umræðan

Sjá meira


×