Körfubolti

Opnar sig um morð­hótanir, á­rásir og hótanir eftir titilinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Angel Reese þurfti að halda aftur af tárunum í viðtali eftir leik.
Angel Reese þurfti að halda aftur af tárunum í viðtali eftir leik. Sarah Stier/Getty Images

Angel Reese, leikmaður LSU Tigers í bandaríska háskólakörfuboltanum, hefur opnað sig um pressuna sem fylgir frægðinni eftir að hún vann deildarmeistaratitilinn með liði sínu á síðasta ári.

Reese skaust upp á stjörnuhimininn í fyrra eftir að hún leiddi lið sitt að titlinum í háskólaboltanum í körfubolta. Liðið komst ófáum sinnum í fréttirnar vestanhafs og var Reese oftar en ekki skotspónn gagnrýni sem oft fylgdi rasískur eða kynbundinn undirtónn.

„Ég hef orðið fyrir svo mörgum árásum,“ sagði Reese í viðtali eftir að lið hennar féll úr leik gegn Iowa Hawkeyes í fyrrinótt. „Ég hef fengið morðhótanir, verið kyngerð og verið hótað. Ég hef þurft að þola svo margt en alltaf staðið upprétt,“ bætti Reese við.

„Ég reyni bara að vera sterk fyrir liðsfélaga mína því ég vil ekki að þær sjái að mér líði illa og að ég sé ekki til staðar fyrir þær. Allt þetta hefur gerst síðan ég vann titilinn. Það er ömurlegt, en ég myndi samt ekki gera neitt öðruvísi.“

„Ég vona að ég geti veitt öllum ungu stelpunum sem líta upp til mín einhverskonar innblástur. Að ég haldi áfram að vakna á morgnanna, haldi áfram sama metnaði, að vera sú sem ég er, að standa á eigin fótum og ekki gefast upp og haldi áfram að hafa trú á sjálfri mér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×