Skoðun

Sið­ferði fót­bolta­sam­fé­lagsins – á­skorun til KSÍ

Ingólfur Gíslason skrifar

Ég á langa sögu sem stuðningsmaður landsliða Íslands í knattspyrnu. Fyrsti landsleikurinn sem ég fór á var Ísland-Wales árið 1980, þá var ég sex ára gamall. Því miður tapaðist leikurinn 0-4 en mörgum árum síðar fór ég til Frakklands og sá Ísland gera jafntefli við Portúgal og Ungverjaland í úrslitakeppni Evrópukeppninnar. Og þá er fátt eitt upp talið af landsleikjum sem ég hef farið á. Ég lék líka knattspyrnu í keppnum á vegum KSÍ í yngri flokkum. Mér finnst reyndar fátt eða ekkert jafn skemmtilegt og að spila fótbolta þegar vel tekst til. Ég geri ráð fyrir að fleiri þekki það dásamlega flæðisástand sem hægt er að komast í þegar maður finnur sig vel á vellinum.

Nú stendur til að karlalandsliðið spili við landslið landtökunýlendunnar Ísrael. Mér líst ekki vel á það þar sem Ísraelsríki stendur í árásarstríði gegn Palestínufólki. Alþjóðadómstóllinn hefur úrskurðað til bráðabirgða að það sé rökstuddur grunur um að Ísrael stundi þjóðarmorð á Gaza í Palestínu. Mér og fleirum er gersamlega ofboðið, því mikill meirihluti Íslendinga er á móti morðum á saklausu fólki á Gaza og Vesturbakkanum í Palestínu. Fleira og fleira fólk hefur kynnt sér stöðuna og áttað sig á því gengdarlausa ofbeldi sem fólkið Palestínu þarf að þola, og hefur þurft að þola í ótal myndum í marga áratugi. Fyrir okkur fótboltaáhugafólkið er sérlega vont að vita til þess að Ísraelsher hafi fyrir nokkrum dögum drepið fyrrum landsliðsmann Palestínu í knattspyrnu, Mohammed Barakat, en reyndar hefur herinn drepið mun fleiri fótboltamenn þó að erfitt sé að segja nákvæmlega hve marga. Samkvæmt einni heimild hefur Ísrael drepið um níutíu fótboltamenn í útrýmingarstríðinu sem nú stendur yfir.

Ég veit að það er ekkert smá mál að taka afstöðu innan alþjóðlegra íþróttahreyfinga á borð við FIFA, en einhvers staðar hljóta mörkin að liggja. Til dæmis ákvað stjórn KSÍ árið 2022 að ekkert íslenskt knattspyrnulandslið myndi leika við landslið frá Rússlandi meðan á hernaði Rússa í Úkraínu stæði. Það var rétt ákvörðun. Það var líka rétt og mikilvægt hjá FIFA að útiloka Suður-Afríku frá keppni í þrjátíu ár, frá 1961 til 1991, á meðan þar ríkti kynþáttaaðskilnaður. Tólf knattspyrnusambönd í Mið-Austurlöndum hafa nú farið fram á að Ísrael verði útilokað frá keppnum FIFA. Nú er tækifæri til þess að taka aftur rétta ákvörðun og sniðganga leiki við Ísrael. Ég hvet KSÍ til að taka skýra afstöðu og beita sér gegn þátttöku Ísraels í alþjóðlegum keppnum FIFA.

Höfundur er aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×