Körfubolti

Tryggvi í undan­úr­slit eftir magnaða endur­komu Bilbao í Evrópuleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason stóð sig mjög vel þær mínútur sem hann spilaði með Bilbao í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason stóð sig mjög vel þær mínútur sem hann spilaði með Bilbao í kvöld. Getty/Borja B. Hojas

Tryggvi Snær Hlinason og félagar í Bilbao Basket tryggðu sér í kvöld sæti í undanúrslitum FIBA Europe Cup eftir 28 stiga sigur á Legia Varsjá, 81-53, á heimavelli.

Þetta var seinni leikurinn í átta liða úrslitum. Pólverjarnir unnu fyrri leikinn með nítján stigum á heimavelli, 83-64, og voru því í frábærum málum.

Spænska liðið vann hins vegar upp muninn með frábærri frammistöðu í Bilbao Arena og spila því í undanúrslitum Evrópukeppninnar í ár.

Íslenski landsliðsmiðherjinn stóð sig vel í kvöld en Tryggvi endaði leikinn með 9 stig, 4 fráköst og 2 varin skot á 12 mínútum. Bilbao vann þessar mínútur með 21 stigi.

Það þurfti stórleik frá heimamönnum til að snúa þessu við og fjölmargir áhorfendur í Bilbao fengu einmitt að sjá sína menn í stuði.

Bilbao var sextán stigum yfir í hálfleik, 48-32, eftir að hafa náð mest 22 stiga forskoti í fyrri hálfleiknum, 40-18.

Tryggvi átti frábæra innkomu í fyrri hálfleikinn þar sem hann var með fjögur stig og tvö fráköst á sex mínútum. Bilbao vann þennan kafla með fimmtán stigum en Tryggvi settist aftur á bekkinn með tvær villur.

Bilbao komst aftur tuttugu stigum yfir í þriðja en að munaði aftur bara sautján stigum á liðunum í leikhlutaskiptunum.

Bilbao var komið 22 stigum yfir, 64-42, eftir troðslu frá Tryggva og útlitið gott.

Bilbao keyrði síðan yfir Pólverjana í lokaleikhlutanum og vann öruggan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×