Körfubolti

Keflavíkurkonur byrjuðu seinni hálf­leik 16-0 og fóru létt með Hauka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingurinn Daniela Wallen fyllti út í tölfræðiblaðið í kvöld.
Keflvíkingurinn Daniela Wallen fyllti út í tölfræðiblaðið í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Deildarmeistarar Keflavíkur mæta sjóðandi heitar inn í bikarvikuna eftir 23 stiga sigur á Haukum, 86-63, í Blue höllinni í Keflavík í Subway deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Þetta var sjötti deildarsigur Keflavíkurliðsins í röð en þær eru með tíu stiga forskot á toppnum og búnar að tryggja sér heimavallarrétt út alla úrslitakeppnina.

Daniela Wallen var öflug með 17 stig, 16 fráköst, 6 stoðsendingar og 5 stolna bolta og Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 17 stig og gaf 4 stoðsendingar.

Elisa Pinzan bætti við 17 stigum og 6 stoðsendingum og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 11 stig

Hjá Haukum var Keira Robinson með 20 stig og 9 fráköst en Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 11 stig.

Keflavík náði tíu stiga forskot í fyrsta leikhluta en leiddi með fimm stigum eftir hann, 22-17.

Keflavíkurkonur voru níu stigum yfir í hálfleik, 44-35, en gerðu endanlega út um leikinn með frábærri byrjun á seinni hálfleiknum.

Haukkonur skoruðu ekki fyrstu sex og hálfu mínútu hálfleiksins og Keflavík vann þær 16-0.

Eftir það var formsatriði fyrir heimskonur að klára leikinn sem þær gerðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×