Formúla 1

Heims­meistarinn á verð­launa­palli í hundraðasta sinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Max Verstappen skellti sér á verðlaunapall í hundraðasta sinn á ferlinum í dag.
Max Verstappen skellti sér á verðlaunapall í hundraðasta sinn á ferlinum í dag. Rudy Carezzevoli/Getty Images

Þrefaldi heimsmeistarinn Max Verstappen vann öruggan sigur í Formúlu 1 í dag er keppt var í Sádi-Arabíu. Með sigrinum kom hann sér á verðlaunapall í hundraðasta sinn á ferlinum.

Verstappen var á ráspól þegar farið var af stað í Sádi-Arabíu í dag og hafði hann mikla yfirburði frá upphafi til enda. Hann leiddi alla keppnina, ef frá er talin stuttur tími eftir að hann fór inn á þjónustusvæði snemma í keppninni eftir að Lance Stroll, ökumaður Aston Martin, missti stjórn á bíl sínum og endaði úti í vegg.

Lando Norris leiddi þá um stund, en Verstappen var fljótur að koma sér í fyrsta sæti á ný og eftir það var sigur hans í raun aldrei í hættu.

Verstappen hefur nú endað á verðlaunapalli í hundrað af þeim 188 keppnum sem hann hefur byrjað í Formúlu 1.

Liðsfélagi Verstappen hjá Red Bull, Sergio Perez, kom annar í mark og Charles Leclerc á Ferrari varð þriðji yfir endamarkslínuna. Oliver Bearman, sem keyrði á Ferrari í fjarveru Carlos Sainz, gerði vel og endaði sjöundi í sinni fyrstu keppni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×