Körfubolti

Bara sau­tján stigum frá meti Pistol Pete

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark er búin að vera frábær með liði Iowa Hawkeyes undanfarin fjögur ár.
Caitlin Clark er búin að vera frábær með liði Iowa Hawkeyes undanfarin fjögur ár. Getty/David Berding

Körfuboltakonan Caitlin Clark bætti í nótt stigamet Lynette Woodard yfir flest stig hjá konu í öllum deildum bandaríska háskólaboltans.

Clark hafði áður orðið sú sem hefur skorað flest stig í 1. deild háskólaboltans. Hún á hvern stórleikinn á fætur öðrum og er fyrir löngu orðin eitt allra stærsta nafnið í bandarísku íþróttalífi.

Clark gerði þetta í nótt með því að ná sinni sautjándu þrennu en hún var með 33 stig, 12 stoðsendingar og 10 fráköst í sigurleik á Iowa á Minnesota.

Clark varð enn fremur sú fyrsta til að skora yfir fimm hundruð þriggja stiga körfur á háskólaferli sínum. Hún skoraði átta þrista í leiknum og er þar með komin með 503.

Nú er bara eitt stórt met eftir og það er að slá stigamet beggja kynja í bandaríska háskólaboltanum.

Pistol Pete Maravich skoraði á sínum tíma 3.667 stig fyrir LSU skólann frá 1967 til 1970. Hann setti metið þegar það var engin þriggja stiga lína og hann gerði það á þremur árum. Clark er vissulega á fjórða ári en það væri stórt takmark fyrir hana að slá karlametið ofan á öll hin metin sem eru nú í hennar eigu.

Clark vantar nú aðeins sautján stig í lokaleiknum sínum til að bæta metið. Sá leikur er á móti Ohio State um næstu helgi en það lið er eitt það allra besta í boltanum í dag. Miðaverð á leikinn er það hæsta sem hefur verið í háskólaboltanum.

„Ég er að komast nær og nær metinu hans Pete. Ég man eftir því þegar ég var í gagnfræðaskóla þá var fólk að koma til mín til að tala um Pete. Þau sögðu við: Þú verður að horfa á hann á YouTube,“ sagði Clark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×