Körfubolti

Búnir að vinna sjö heima­leiki í röð með Martin í liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson í leiknum á móti Ungverjum í gær. Hann skoraði sautján stig og var stigahæstur í íslenska liðinu.
Martin Hermannsson í leiknum á móti Ungverjum í gær. Hann skoraði sautján stig og var stigahæstur í íslenska liðinu. Vísir/Hulda Margrét

Martin Hermannsson spilaði á ný með íslenska körfuboltalandsliðinu í gærkvöldi og var stigahæstur í flottum endurkomusigri á Ungverjum.

Það var mikilvægt að vinna fyrsta leikinn í undankeppni Eurobasket og með þessu lifir draumurinn um þriðja stórmótið góðu lífi.

Martin hafði ekki spilað með íslenska landsliðinu í tvö ár eftir erfið hnémeiðsli og það var falleg sjón að sjá hann á ný á gólfinu í íslenska landsliðsbúningnum.

Það hefur líka munað um Martin eins og mögnuð sigurganga hans með landsliðinu sýnir.

Íslenska liðið hefur þannig unnið sjö síðustu heimaleiki sína sem Martin hefur spilað. Það eru allir heimaleikir liðsins með Martin frá því í nóvember 2017 eða allir heimaleikir í rúm sex ár.

Síðasti heimaleikur Martin sem tapaðist var á móti Búlgaríu 27. nóvember 2017. Martin var með 21 stig og 6 stoðsendingar í leiknum en það dugði ekki til.

Síðan þá hefur Martin ávallt fagnað sigri. Sjö leikir í röð, sex í Laugardalshöllinni og einn í Ólafssal. Allt leikir í keppni, undankeppni EM eða undankeppni HM.

Martin hefur skorað sextán stig eða meira í sex af þessum leikjum og í þeim sjöunda var hann með þrettán stig og átta stoðsendingar.

Hér fyrir neðan má sjá þessa sjö sigurleiki í röð með Martin innanborðs.

 • Síðustu sjö heimaleikir Íslands með Martin Hermannsson í liðinu:
 • 23. febrúar 2018 í Laugardalshöll
 • Fimm stiga sigur á Finnlandi (81-76)
 • Martin með 26 stig og 6 stoðsendingar
 • 25. febrúar 2018 í Laugardalshöll
 • Eins stigs sigur á Tékklandi (76-75)
 • Martin með 26 stig og 4 þrista
 • 21. febrúar 2019 í Laugardalshöll
 • 24 stiga sigur á Portúgal (91-67)
 • Martin með 13 stig og 8 stoðsendingar
 • 10. ágúst 2019 í Laugardalshöll
 • Eins stigs sigur á Sviss (83-82)
 • Martin með 16 stig og 3 stoðsendingar
 • 17. ágúst 2019 í Laugardalshöll
 • 28 stiga sigur á Portúgal (96-68)
 • Martin með 19 stig og 7 stoðsendingar
 • 24. febrúar 2022 í Ólafssal
 • Tveggja stiga sigur á Ítalíu (107-105)
 • Martin með 23 stig og 7 stoðsendingar
 • 22. febrúar 2024 í Laugardalshöll
 • Fimm stiga sigur á Ungverjalandi (70-65)
 • Martin með 17 stig og 4 stoðsendingarFleiri fréttir

Sjá meira


×