Viðskipti innlent

Gamla Straumi-Burðarás form­lega slitið

Árni Sæberg skrifar
ALMC hf. hefur varið afskráð hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.
ALMC hf. hefur varið afskráð hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri

Félaginu ALMC hf., sem hét áður Straumur-Burðarás og var um tíma stærsti fjárfestingarbanki landsins, hefur formlega verið slitið. Skilanefnd samþykkti kröfur upp á um 25 milljónir króna en lýstar kröfur námu um 48 milljónum króna. Samþykktar kröfur voru greiddar að fullu.

Þetta segir í auglýsingu sem birt var í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar segir að með ályktunarbærum hluthafafundi þann 6. júní árið 2023 hafi verið tekin ákvörðun um að hefja slitaferli á ALMC hf.. Lögmennirnir Gunnar Þór Þórarinsson og Óttar Pálsson hafi verið kjörnir skilanefndarmenn.

Með almennri innköllun sem birtist í fyrra skiptið þann 15. september 2023 ásamt leiðréttingu á fyrri innköllun sem birtist í fyrra skiptið þann 27. september 2023, hafi verið skorað á lánardrottna félagsins að lýsa kröfum innan kröfulýsingarfrests. Á kröfuhafafundi þann 27. nóvember 2023 hafi skilanefnd lagt fram kröfuskrá sem innihélt endanlega afstöðu skilanefndar til lýstra krafna. 

Lýstar kröfur hafi numið 321.877 evrum og skilanefnd hafi samþykkt þar af kröfur upp á 164.092 evrur. Engar athugasemdir hafi verið gerðar.

Á fundi með hluthöfum þann 12. desember árið 2023 hafi skilanefnd lagt fram frumvarp að úthlutunargerð og lokareikning félagsins. Engar athugasemdir hafi verið gerðar. Skilanefndarmönnum hafi verið falið að óska eftir að félagið yrði afskráð úr fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra.

Skilanefnd ALMC hf. hafi gert upp við hluthafa félagsins að fullu í samræmi við frumvarpið. Auk þess hafi félagið verið afskráð hjá fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. 

Skilanefnd hafi tilkynnt fyrirtækjaskrá um lok starfa nefndarinnar og hún þar með lokið störfum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×