Körfubolti

Sló stiga­metið með þriggja stiga skoti frá „lógóinu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark fagnar körfunni sem tryggði henni metið og ekki er minni fögnuður hjá áhorfendum.
Caitlin Clark fagnar körfunni sem tryggði henni metið og ekki er minni fögnuður hjá áhorfendum. AP/Matthew Putney

Caitlin Clark vantaði átta stig til að verða í nótt stigahæsta kona í sögu bandaríska háskolaboltans. Hún skoraði 49 stig í leiknumþegar Iowa vann 106-89 sigur á Michigan.

Clark var ekkert að bíða eftir því að slá metið því hún skoraði átta fyrstu stiga Iowa liðsins í leiknum.

Clark sló stigametið með þriggja stiga skoti frá „lógóinu“. Hún keyrði upp völlinn, stoppaði langt utan og lét vaða. Boltinn fór beina leið í körfuna og höllin trylltist. Þarna voru aðeins liðnar tvær mínútur og tólf sekúndur af leiknum.

„Þið vissuð öll að ég ætlaði að slá metið með því að skjóta frá lógóinu,“ sagði Caitlin Clark létt í leikslok.

Clark er svakaleg skytta og frábær spilamennska hennar undanfarin ár hefur gert hana að einum vinsælasta íþróttamanni Bandaríkjanna. Það er uppselt á flesta leiki Iowa og miðarnir á leikina seljast á uppsprengdu verði.

Kelsey Plum átti metið en hún skoraði á sínum tíma 3527 stig fyrir Washington skólann frá 2013 til 2017.

Clark er nú komin með 3569 stig og á eftir að bæta mikið við metið enda nóg af leikjum eftir.

Áður en leiknum lauk hafði hún sett nýtt persónu stigamet og bætt stigamet skólans. Hún lét sér ekki bara nægja að skora þessi 49 stig því hún var einnig með 13 stoðsendingar á liðsfélaga sína. Clark skoraði 9 þrista í leiknum og hitti alls úr 16 af 31 skoti sínum. Hún átti því beinan þátt í 29 af 34 körfum liðsins.

Næsta takmark hlýtur að verða að slá stigamet Pete Maravich og verða þannig stigahæsti leikmaðurinn í 1. deild háskólaboltans hjá báðum kynjum. Það eru fjórir deildarleikir eftir og hana vantar 99 stig til að slá met Maravich.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×