Körfubolti

Besta körfu­bolta­stelpan gaf öllu strá­kaliðinu Beats heyrnar­tól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Angel Reese er ein sú besta sem spilar í bandaríska háskólaboltanum í dag.
Angel Reese er ein sú besta sem spilar í bandaríska háskólaboltanum í dag. Getty/Simon Bruty

Körfuboltakonan Angel Reese mætti færandi hendi á liðsfund strákaliðs LSU háskólans á dögunum.

Reese er eitt stærsta nafnið í kvennaháskólaboltanum í Bandaríkjunum en hún fór á kostum þegar LSU varð háskólameistari í fyrra.

Reese vakti ekki aðeins athygli á sér með góðri frammistöðu inn á vellinum því hún var líka með sjálfstraust og muninn fyrir neðan nefið utan vallarins. Hún fékk gælunafnið Bayou Barbie.

Reese hefur í framhaldinu fengið alls kyns auglýsingasamninga og þar á meðal við Beats.

Hún ákvað að gleðja körfuboltastrákana í skólanum sínum með því að gefa þeim öllum Beats heyrnartól.

„Ég kann að meta stuðning ykkar og hvernig þið styðjið á bak við liðið okkar. Ég vil þakka ykkur fyrir veturinn og hrósa ykkur fyrir það að gera betur en í fyrravetur. Það eru miklar væntingar hér í skólanum og það er ekki auðvelt standast þær, sagði Angel Reese í stuttri ræðu áður en hún gaf strákunum heyrnartólin. 

Strákarnir fögnuðu þessu vel og ánægðir með framtak bestu körfuboltakonu skólans. Það má sjá myndband með því að fletta hér fyrir neðan.

Angel Reese var með 23,0 stig og 15,4 fráköst að meðaltali í leik á síðasta tímabili og í ár er hún með 19,3 stig og 12,1 frákast í leik. Það ráða ekki margar við hana undir körfunni.

Kvennalið LSU hefur unnið 19 af 23 leikjum sínum (83%) þar af 13 af 14 heimaleikjum sínum. Karlaliðið hefur unnið 12 af 21 leik (57%) þar af 9 af 12 heimaleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×