Innherji

Vextir haldast ó­breyttir en spennan fer minnkandi og verð­bólgu­horfur batna

Hörður Ægisson skrifar
„Áhrif peningastefnunnar koma æ skýrar fram,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður hennar.
„Áhrif peningastefnunnar koma æ skýrar fram,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun en Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri er formaður hennar. Vísir/Vilhelm

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að halda vöxtum áfram óbreyttum í 9,25 prósent, sem er í samræmi við spár flestra greinenda og markaðsaðila, en í yfirlýsingu nefndarinnar er sagt að vísbendingar séu um að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en áður var reiknað með. Háir vextir séu farnir að bíta sem endurspeglast í minnkandi spennu og batnandi verðbólguhorfum.

„Áhrif peningastefnunnar koma æ skýrar fram,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar í morgun en ákvörðun um að halda vöxtum óbreyttum – þriðja fundinn í röð – kemur í kjölfar þess að í liðinni viku voru kynntar nýjar verðbólgutölur sem sýndu að tólf mánaða verðbólgan hefði lækkað úr 7,7 prósent í 6,7 prósent.

Peningastefnunefndin bendir á að raunvextir hafi hækkað frá því að nefndin kom síðast saman í lok nóvember og sömuleiðis mæld verðbólga. Þá hefur einnig undirliggjandi verðbólga lækkað nokkuð.

Í vaxtakönnun Innherja, sem var framkvæmda dagana 1. og 2. febrúar og fjallað um síðastliðinn mánudag, var mikill meirihluti á þeirri skoðun að vöxtum yrði haldið óbreyttum í vikunni. 

Var meðal annars vísað til þess að þótt margt hafi fallið með peningastefnunefndinni að undanförnu, sem endurspeglast í kólnandi hagkerfi og lækkandi verðbólgu- og verðbólguvæntingum, þá væri enn óvissa um lyktir kjarasamninga og áhrifin á ríkissjóð vegna jarðhræringana á Reykjanesi. Því væri viðbúið að Seðlabankinn myndi „vilja bíða og sjá“ áður en hann myndi hefja strax vaxtalækkunarferli, eins og sumir hafa kallað eftir.

Áhrif peningastefnunnar koma æ skýrar fram. Raunvextir hafa hækkað og verðbólga hjaðnað nokkuð frá nóvemberfundi nefndarinnar.

Yfirlýsing peningastefnunefndar staðfestir að merki eru núna um að efnahagsumsvifin séu að dragast saman hraðar en fyrri spár gerðu ráð fyrir. Þannig er vísað til nýrrar þjóðhagsspár Seðlabankans, sem birtist í Peningamálum í dag, að spennan í þjóðarbúinu fari minnkandi og snýst í slaka undir lok ársins. Af þessu leiðir hafi því verðbólguhorfur batnað.

Peningastefnunefndin sér hins vegar ástæðu til að minna á að langtímaverðbólguvæntingar hafi lítið breyst og haldist nokkuð yfir 2,5 prósenta markmiði. „Þótt hægt hafi á vinnumarkaði er spenna þar enn til staðar. Verðbólga gæti því áfram reynst þrálát,“ segir í yfirlýsingu nefndarinnar, sem bætir við í lokin: „Þá er einnig óvissa um niðurstöður kjarasamninga og mögulegar aðgerðir í ríkisfjármálum tengdar þeim og vegna jarðhræringa á Reykjanesi.“

Verulega skiptar skoðanir eru meðal hagfræðinga og markaðsaðila hvenær vaxtalækkunarferli Seðlabankans muni hefjast, en næsta vaxtaákvörðun er 20. mars næstkomandi. 

„Ég held að bankinn geti lækkað vexti strax í marsmánuði og síðan lækkað nokkuð hratt á árinu. Raunstýrivextir horft fram á veginn eru orðnir verulega jákvæðir í umhverfi þar sem augljóst er að hagkerfið er að kólna hratt,“ sagði einn þátttakandi í könnun Innherja.

Aðrir telja að bíða þurfi lengur áður en nefndin fer að lækka vextina.

„Horft fram í tímann er stóra spurningin hvort kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu jafn hóflegar og af er látið, ég tel ólíklegt að svo sé. Hættan er sú að of háir kjarasamningar og áframhaldandi hallarekstur ríkissjóðs munu valda því að verðbólgan verði þrálát og að vaxtalækkunarferlið verði talsvert hægara en ella.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×