Handbolti

Króatar vita ekki hvort þeir ætla að tapa viljandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Goran Perkovac, þjálfari Króatíu, stendur á gati hvernig hann á að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Þýskalandi.
Goran Perkovac, þjálfari Króatíu, stendur á gati hvernig hann á að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Þýskalandi. getty/Marco Steinbrenner

Þjálfari króatíska karlalandsliðsins í handbolta veit ekki hvað hann á að segja við leikmenn þess fyrir leikinn gegn Þýskalandi í milliriðli 1 á EM í dag.

Króatía er nefnilega í þeirri skrítnu stöðu að hagnast á tapi. Ef Þýskaland vinnur leikinn og kemst í undanúrslit EM fer Króatía í umspil um sæti á Ólympíuleikunum.

„Ég veit ekki hvað við getum gert. Við verðum að spila okkar besta leik og sjá svo hvað gerist. En að fara inn í leikinn gegn Þýskalandi og tapa viljandi er ekki heiðarlegt. Ég held ekki,“ sagði Goran Perkovac, þjálfari króatíska liðsins.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég er í svona stöðu, að fara inn í leik og vilja tapa. Þetta verður mjög erfitt,“ bætti Perkovac við.

Hann hefur ekki hugmynd um hvað hann á að segja við leikmenn sína fyrir leikinn gegn Þýskalandi í dag.

„Ég veit ekki. Við verðum að tala um þetta. Ég veit ekki hvað ég á að segja,“ sagði Perkovac.

Króatar eru næstir inn í umspilssæti fyrir Ólympíuleikana, út frá árangri á síðasta HM. Einn öruggur farseðill á ÓL er í boði á EM, fyrir Evrópumeistarana (eða næsta lið á eftir Danmörku og Frakklandi sem eru þegar komin inn á ÓL).

Austurríki er eina liðið sem enn getur náð þessum farseðli á ÓL, sem ekki er þegar komið inn á ÓL eða í ÓL-umspilið. Það vilja Króatar ekki að gerist því að þeir eru næstir inn í ÓL-umspilið út frá árangri á síðasta HM, og fá það sæti ef að lið sem var komið inn í umspilið (Svíþjóð, Þýskaland eða Ungverjaland) kemst beint á ÓL í gegnum EM.

Eftir standa síðan tvö laus sæti í umspilið hjá þeim þjóðum sem eru ekki þegar komnar í umspilið eða á ÓL. Íslenska landsliðið dreymir um annað þeirra sæta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×