Körfubolti

Á­horf­andi hljóp niður súperstjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark er magnaður leikmaður en það hefði getað farið illa í gær.
Caitlin Clark er magnaður leikmaður en það hefði getað farið illa í gær. Getty/Andy Lyons

Bandaríska körfuboltakonan Caitlin Clark átti frábæran leik með Iowa háskólanum en það dugði þó ekki til sigurs í gær og eftir leik munaði litlu að súperstjarna bandaríska háskólakörfuboltans meiddist illa.

Clark hefur stóraukið áhuga Bandaríkjamanna á kvennakörfuboltanum og aðsóknin á leiki margfaldast þegar hún mætir á svæðið. Hún stendur líka undir nafni og býður upp á hverja súperframmistöðuna á fætur annarri.

Clark nálgast líka óðum stigamet háskólaboltans og er öðrum fremur ástæðan fyrir því að Iowa skólinn er að ógna risunum í háskólaboltanum.

45 stig hennar dugðu hins vegar ekki til sigurs á Ohio State í gær. Ohio State vann 100-92 eftir framlengdan leik.

Stuðningsfólk Ohio State, flestir nemendur við skólann, hlupu inn á völlinn í leikslok til að fagna sigrinum.

Clark reyndi að komast sem fyrst af vellinum og til búningsklefa en ekki vildi betur til en að einn af áhorfendunum sem var að hlaupa inn á völlinn hljóp hana niður. Algjörlega óviljandi.

Clark sá ekki áhorfandann og steinlá í gólfinu. Liðsfélagar hjálpuðu henni af velli og hún ræddi þetta atvik eftir leikinn.

„Ég sá að þau voru hlaupa inn á völlinn sem var í fínu lagi. Gott fyrir þeirra nemendur og frábær sigur hjá þeim,“ sagði Caitlin Clark. Hún sagðist hafa fengið þungt högg og það hafi komið henni algjörlega að óvörum þegar hún sjálf var að reyna að komast sem fyrst í öruggt skjól. „Þetta var frekar óhugnanlegt enda hefði ég getað meiðst illa þarna,“ sagði Clark en þjálfari hennar var reið.

„Svona á ekki að geta gerst. Okkar leikmenn ættu að vera öruggir og ætti að geta gengið óhultar af velli. Það er auðvitað mikil vonbrigði að leikmenn okkar geti meiðst á leiðinni til búningsklefa. Það er bara rangt,“ sagði Lisa Bluder, þjálfari Iowa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×