Viðskipti innlent

Út­rás í Reykja­vík eftir sau­tján ára rekstur á Akur­eyri

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fjölskyldan sem hefur unnið hug og hjörtu Akureyringa hefur fært út kvíarnar.
Fjölskyldan sem hefur unnið hug og hjörtu Akureyringa hefur fært út kvíarnar. Sathiya Moorthy

Indverski veitingastaðurinn Indian curry house sem rekinn hefur verið í göngugötunni á Akureyri við góðan orðstí um árabil hefur opnað útibú í höfuðborginni.

Staðurinn var opnaður rétt fyrir jól en á sama tíma er Indian curry house lokaður á Akureyri vegna vetrarfrís starfsfólks. Lokað var á Akureyri 19. desember en verður opnað aftur 5. febrúar. Um er að ræða árlegt vetrarfrí starfsfólks.

Á sama tíma og Akureyringar fá ekki indverska karrýið sitt geta Reykvíkingar sótt matinn á Vesturgötu 12. Þar er eingöngu hægt að sækja mat, ekki borða á staðnum.

„Frábær viðbót í veitingahúsaflóruna hér fyrir sunnan,” segir veitingamaðurinn Guðvarður Gíslason, betur þekktur sem Guffi á Gauknum, í færslu á Facebook.

Nýi staðurinn er staðsettur við Vesturgötu 12 við norðurenda Garðastrætis í vesturbæ Reykjavíkur.Indian Curry House

Hann rifjar upp að fjölskyldufaðirinn Sathiya Moorthy hafi unnið hjá honum á Götugrilinu á Akureyri í nokkur ár og strax sett svip sinn á staðinn og allt umhverfi.

„Hann býr á Akureyri ásamt konu sinni og 3 börnum. Þó þau séu frá Indlandi eru þau Íslendingar sem hafa byggt upp frábæra starfsemi á Akureyri og núna í Reykjavík.“

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar líka útrásinni.

„Nú er okkar uppáhalds og sívinsæli akureyrski indverski veitingastaður, Indian curry house kominn í útrás til Reykjavíkur, nánar tiltekið á Vesturgötuna. Ég hvet ykkur til að fara og fá ykkur bita!“ segir Ásthildur.

Hjónin Sathiya og Jothimani Sathiyamoorthy komu til Íslands árið 1997 og opnuðu Indian curry hut árið 2007. Staðurinn flutti sig um set í miðbæ Akureyrar, er nú við Ráðhústorgið og fékk nafnið Indian curry house. Þau eiga tvo syni og eina dóttur sem fékk nafnið Svanhildur því hjónunum finnst íslensk nöfn svo falleg.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×