Viðskipti innlent

Meniga til­kynnir um 2,2 milljarða fjár­mögnun

Atli Ísleifsson skrifar
Dheeraj (Raj) Soni er forstjóri Meniga.
Dheeraj (Raj) Soni er forstjóri Meniga. Aðsend

Meniga hefur tilkynnt um 15 milljóna evru fjármögnun, sem samsvarar um 2,2 milljörðum íslenskra króna, í D-fjármögnunarlotu. Þátttakendur í fjármögnungarlotunni voru stórir evrópskir bankar eins og BPCE og Crédito Agrícola, fjárfestingafélagið Omega ehf, ásamt þátttöku margra af núverandi hluthöfum.

Frá þessu segir í tilkynningu frá félaginu. Þar kemur fram að heildarfjárfesting í Meniga, sem hefur þróað lausnir á sviði heimilisfjármála, nemi nú 55 milljón evrum til þessa.

Ennfremur segir að hluti af fjármögnuninni verði nýttur til að greiða upp núverandi skuldir og verði fyrirtækið nú nánast skuldlaust.

„Fjármögnunin verður einnig nýtt til að styðja við nýja vaxtarstefnu Meniga með áherslu á að þróa enn frekar kjarnavörur sem snúa að gagnaauðgun og virðisaukandi persónusniðnum skilaboðum í fjármálaþjónustu. Þar að auki felur ný stefna í sér aukna áherslu á greiðslulausnir fyrir banka sem byggja á hinu ört vaxandi opna bankakerfi,“ segir í tilkynningunni.

Um Meniga segir að það sé leiðandi fyrirtæki þegar komi stafrænum bankalausnum á alþjóðamarkaði þar sem yfir 100 milljón viðskiptavinir banka hafi aðgang að vörum fyrirtækisins í fleiri en þrjátíu löndum í Evrópu, Norður-Ameríku, Miðausturlöndum og Asíu.

„Á meðal viðskiptavina fyrirtækisins eru margir áhrifamestu bankar á þessum svæðum eins og UOB, UniCredit, Groupe BPCE, Credíto Agrícola, Swedbank og Commercial Bank of Dubai. Ný stefna Meniga, sem var mörkuð í kjölfarið af innkomu nýs framkvæmdastjóra, Raj Soni, sumarið 2023, leggur upp með einföldun á vöruframboði fyrirtækisins, útvíkkun viðskiptavina þvert á fjármálastarfsemi en ekki bundin við banka og sókn á ný tækifæri á vaxandi mörkuðum í Miðausturlöndum, Suður-Ameríku og Asíu. Þá er stefnt að opnun nýrra rekstrareininga með áherslu á vöxt og þjónustu við viðskiptavini í framhaldi af innleiðingu á vörum Meniga,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×