Viðskipti innlent

Fram­leiðsla á rifostum slær öll met á Sauð­ár­króki

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Framleiðslan af rifostum verður tæplega tvö þúsund tonn þegar árið er liðið hjá MS á Sauðárkróki ef allt gengur eftir.
Framleiðslan af rifostum verður tæplega tvö þúsund tonn þegar árið er liðið hjá MS á Sauðárkróki ef allt gengur eftir. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Framleiðsla á rifostum hjá Mjólkursamsölunni á Sauðárkróki hefur slegið öll met í ár en framleiðslan verður tæplega tvö þúsund tonn þegar árið er liðið. Osturinn fer meira og minna ofan á pizzur landsmanna.

Rifostadeildin í mjólkurstöðinni eins og hún er alltaf kölluð af heimamönnum hefur verið starfrækt frá því í 2009 en hún var áður til húsa hjá Osta- og smjörsölunni í Reykjavík.

Í deildinni á Sauðárkróki er framleiddur nánast allur rifostur í landinu, bæði fyrir smásölumarkaðinn og til veitingahúsa.

„Þetta verður svona átján hundruð til átján hundruð og fimmtíu tonn á þessu ári og það hefur verið stöðug aukning frá byrjun. Það er rosalega mikið en það hefur verið svona 70 til 80 tonna aukning á hverju ári hjá okkur,” segir Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri hjá MS á Sauðárkróki.

„Þetta magn segir dálítið til um hvernig neysluhefð okkar Íslendinga er pínu að breytast. Neysla á pizzum hefur stóraukist og svo framvegis,” bætir Jón Þór við.

Jón Þór Jósepsson, framleiðslustjóri hjá MS á Sauðárkróki, sem er að gera góða hluti með sínu fólki á starfsstöð MS á staðnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvernig osta er Jón Þór og hans starfsfólk að nota í rifostana?

„Það er notað í þetta að svona stærstum hluta pizza moserella frá Egilsstöðum, bæði 17% og 21 og svo erum við að blanda saman við þetta ostum, sem við framleiðum hérna sjálfir.”

Og Jón Þór er bjartsýnn með sölu á rifostunum og öðrum ostum á nýju ári, sem framleiddir eru á Sauðárkróki.

„Það verður bara áfram uppgangur í ostunum, já, já, það er það. Það er söluaukning, við erum náttúrulega með mikið af ferðamönnum í landinu og það þarf að sinna þeim. Þannig að ég sé ekkert fram á annað en að það verði mikill uppgangur.”

Í deildinni á Sauðárkróki er framleiddur nánast allur rifostur í landinu, bæði fyrir smásölumarkaðinn og til veitingahúsa.Magnús Hlynur Hreiðarsson




Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×