Viðskipti innlent

Öng­þveiti þegar nýjar snyrti­vörur fóru í sölu í Krónunni

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Starfsfólk Krónunnar átti ekki von á slíkri mannmergð í Lindum í gær.
Starfsfólk Krónunnar átti ekki von á slíkri mannmergð í Lindum í gær. Rúnar Kristmannsson

Uppi varð fótur og fit í verslun Krónunnar í Lindum í Kópavogi síðastliðinn föstudag þegar snyrtivörur frá e.l.f. Cosmetics fóru í sölu í versluninni í fyrsta sinn. Starfsfólk hafði ekki undan við að taka upp úr kössum, svo æstir voru viðskiptavinir í vörurnar.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir í samtali við Vísi að starfsfólk hafi átt von á miklum fjölda í versluninni en ekkert í líkingu við þetta. 

Kalla hafi þurft út auka mannskap um stund. Vörurnar hafi rokið út á mettíma. Síðan hafi lítill tími gefist til þess að taka upp úr kössum þegar komið var með nýjar vörur, svo mikið lá viðskiptavinum á að næla sér í vörur.

Löng röð myndaðist í versluninni. Rúnar Kristmannsson

e.l.f. Cosmetics snyrtivörurnar hafa notið mikilla vinsælda á samfélagsmiðlum. Sérstaklega á Tik-Tok og minna vinsældir snyrtivaranna í Krónunni nú á það þegar Prime orkudrykkurinn fór fyrst í sölu í versluninni fyrir ári síðan. Þá myndaðist öngþveiti í versluninni.

Guðrún segir að einhverjar vörur hafi selst upp úr smiðju e.l.f. Um fimm til sex þúsund vörur hafi selst á föstudaginn. Nóg hafi hins vegar verið pantað í flestum flokkum og því sé enn eitthvað eftir.

Hún segir að von sé á annarri sendingu fyrir jól. Þá verða vörur frá snyrtivöruframleiðandanum einnig í boði í verslun Krónunnar Á Akureyri sem opna á miðvikudaginn.

Starfsfólkið hafði ekki tíma til að taka upp úr kössum, því viðskiptavinum lá á að fá vörurnar. Rúnar Kristmannsson
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×