Körfubolti

Stærsta tap LeBrons á ferlinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
LeBron James setti tvö met í nótt.
LeBron James setti tvö met í nótt. getty/Tim Nwachukwu

LeBron James náði merkum áfanga þegar Los Angeles Lakers mætti Philadelphia 76ers í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Hann hafði samt litla ástæðu til að gleðjast eftir leik.

LeBron sló met Kareems Abdul-Jabbar yfir flestar mínútur spilaðar í NBA. Þá eru mínútur í deildar- og úrslitakeppni lagðar saman. LeBron hefur núna spilað 66.319 mínútur á ferlinum.

Leikurinn í nótt var sögulegur fyrir LeBron af annarri ástæðu. Hann mátti nefnilega þola sitt stærsta tap á ferlinum. Lakers tapaði leiknum með 44 stigum, 138-94, en þetta er fimmta stærsta tap í sögu félagsins.

„Þetta skiptir mig ekki miklu máli,“ sagði LeBron er hann var spurður út í mínútumetið sem hann sló.

LeBron spilaði hálftíma í leiknum í nótt. Hann var stigahæstur í liði Lakers með átján stig og gaf auk þess fimm stoðsendingar. Hann tók hins vegar ekki eitt einasta frákast sem þykja tíðindi á þeim bænum.

Tyrese Maxey skoraði 31 stig fyrir Sixers og gaf átta stoðsendingar. Joel Embiid, verðmætasti leikmaður NBA á síðasta tímabili, var með þrefalda tvennu; þrjátíu stig, ellefu fráköst og ellefu stoðsendingar.

Lakers er í 8. sæti Vesturdeildarinnar með tíu sigra og átta töp. Sixers er í 4. sæti Austurdeildarinnar en er aðeins einum sigri frá toppi hennar.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×