Körfubolti

„Körfu­­bolta­­leikur í kvöld en ekki til­­finninga­­legur rússí­bani“

Aron Guðmundsson skrifar
Grannaslagur Grindavíkur og Keflavíkur er á dagskrá Subway deildar karla í körfubolta í dag
Grannaslagur Grindavíkur og Keflavíkur er á dagskrá Subway deildar karla í körfubolta í dag Vísir/Samsett mynd

Pétur Ingvars­son, þjálfari karla­liðs Kefla­víkur í körfu­bolta segir það vissu­lega sér­staka til­finningu að vera halda inn í úti­leik gegn ná­grönnunum frá Grinda­vík þar sem að leikurinn verður spilaður í Smáranum í Kópa­vogi.

Grinda­vík tekur á móti Kefla­vík í fyrri leik kvöldsins í Subway deild karla af tveimur klukkan hálf sex en sökum rýmingar sem staðið var að í Grinda­vík vegna jarð­hræringa á Reykja­nes­skaga verður leikurinn leikinn í Kópa­vogi.

„Leikur kvöldsins er með sér­stakara for­merki þar sem að við erum að fara í Kópa­voginn að keppa við granna okkar frá Grinda­vík. Þetta verður því öðru­vísi en vana­lega,“ sagði Pétur í sam­tali við Val Pál Ei­ríks­son í há­degis­frétta­tíma Bylgjunnar.

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, á hliðarlínunni.Vísir/Bára Dröfn

Það væntan­lega gefur þessu enn sér­stakari blæ. Að vera í Smáranum?

„Já akkúrat. Ég er svo sem vanur því að vera þarna í Smáranum en ekki leik­mennirnir mínir. Þetta er í sjálfu sér ekki hrein­ræktaður heima­völlur fyrir Grind­víkinga og því ekki kjör­að­stæður fyrir þá. Við reynum að nýta okkur það.“

Pétur á von á því að Grind­víkingar muni styðja vel við bakið á sínum mönnum í Smáranum í kvöld en á sama tíma vonar hann að stuðnings­menn Kefla­víkur láti sitt ekki eftir liggja.

„Vonandi mæta ein­hverjir Kefl­víkingar líka og styðja okkur. Þessi deild er bara svo jöfn. Ef þú tapar einum leik þá ertu kominn við botn deildarinnar. Að sama skapi ef þú vinnur einn leik, þá ertu kominn við topp deildarinnar.

Bæði er mikið undir fyrir bæði lið og út frá því hversu jöfn deildin er þá er þetta gífur­lega mikil­vægur leikur fyrir bæði lið. Þá er Grinda­vík er á fljúgandi siglingu um þessar mundir, búið að vinna fjóra leiki í röð.“

Frá því að Grind­víkingum var gert að yfir­gefa heima­bæ sinn á dögunum vegna ó­vissu­á­stands sökum jarð­hræringa á Reykja­nes­skaganum hefur liðið leikið einn leik í Smáranum.

Sá leikur hafði mikið til­finninga­legt gildi fyrir marga en nú á Pétur von á meiri körfu­bolta­leik. Að­stæður utan vallar muni ekki hafa eins mikið að segja í kvöld.

„Ég á síður von á því. Þeirra til­finninga leikur var síðasti leikur. Nú eru þeir kannski komnir að­eins meira niður á jörðina. Þetta eru fimm leik­menn að reyna skora á hitt liðið og passa að þeir skori ekki á móti. Þetta verður körfu­bolta­leikur í kvöld en ekki svona til­finninga­legur rússí­bani fyrir liðin, þá aðal­lega Grind­víkinga.“

Ótrúleg spenna

Þá man Pétur ekki eftir eins jafnri deildar­keppni líkt og við erum að sjá núna þar sem að eftir leiki kvöldsins munu að­eins tvö stig skilja á milli liðsins í fyrsta sæti og liðsins í áttunda sæti.

„Það væri náttúru­lega miklu skemmti­legra ef við værum að vinna alla okkar leiki en deildin er bara jöfn og þó farin að skiptast svo­lítið. Það eru þarna þrjú lið sem eru klár­lega komin í botn­bar­áttuna. Svo eru hin níu liðin bara að berjast í topp­bar­áttunni og um það hverjir enda í miðju­moðinu. Ég man alla­vegana ekki eftir svona spennandi deildar­keppni og fylgist ég með mörgum í­þróttum. Ég man bara ekki eftir því að þetta hafi verið svona ó­trú­lega jafnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×