Formúla 1

Heims­meistarinn gagn­rýnir Las Vegas kapp­aksturinn: „99 prósent sýning“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Perez veifar þegar Red Bull ökumennirnir eru kynntir til leiks í Las Vegas en Max Verstappen virðist ekki mjög hrifinn.
Sergio Perez veifar þegar Red Bull ökumennirnir eru kynntir til leiks í Las Vegas en Max Verstappen virðist ekki mjög hrifinn. AP/Darron Cummings

Max Verstappen er með 266 stiga forskot í keppni ökumanna um heimsmeistaratitilinn í formúlu eitt og er hann fyrir löngu búinn að tryggja sér þriðja heimsmeistaratitilinn í röð.

Næstsíðasti kappakstur tímabilsins fer fram í Las Vegas í Bandaríkjunum um helgina en þetta er í fyrsta sinn í meira en fjóra áratugi sem keppt er í veðmálaborginni.

Formúlan hefur eytt gríðarlegum fjármunum til að sjá til þess að draumur þeirra um formúlukeppni í Las Vegas verði að veruleika. Spilavítin og hótelin tóku líka vel í þetta enda er vona á miklu lífi í borginni þá daga sem keppnin stendur yfir.

Margir bíða spenntir eftir því að sjá þennan viðburð en heimsmeistarinn er ekki eins hrifinn.

„Þetta er 99 prósent sýning og eitt prósent íþróttakeppni,“ sagði Max Verstappen en þetta verður fyrsta formúlukeppnin í Las Vegas í 41 ár.

Hann var kynntur til leiks með mikilli viðhöfn. „Ég stóð bara þarna eins og einhver trúður,“ sagði Verstappen.

Verstappen er ekki hrifinn af öllu fjarðafkokinu í kringum keppnina og gefur lítið fyrir að fá að keyra tvo kílómetra á Las Vegas strip götunni heimsfrægu.

„Þetta er ekki mjög áhugaverð braut. Það eru ekki það margar beygjur ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Verstappen.

Þrátt fyrir neikvæðni heimsmeistarans þá er von á mikilli sýningu. Formúlu aðdáendur fá eflaust mikið augnakonfekt frá bandarískum skipuleggjendum keppninnar enda verður engu til sparað.

Ökumennirnir munu keyra fimmtíu hringi en hver hringur er 6,1 kílómetri á lengd. Keppnin fer fram klukkan tíu á laugardagskvöldi að staðartíma í Las Vegas eða klukkan sex að morgni sunnudagsins að íslenskum tíma.

Keppnin og öll helgin verður sýnd beint á Vodafone Sport stöðinni. Sýnt verður frá æfingum klukkan 04.25 og 07.55 á morgun sem og klukkan 04.25 aðfaranótt laugardagsins.

Tímatakan verður síðan klukkan 07.55 á laugardagmorgun og útsendingin frá keppninni sjálfri hefst klukkan 05.30 á sunnudagsmorgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×