Formúla 1

Stóra veð­mál for­múlunnar í Las Vegas um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það verður mikið um dýrðir þegar fomúlukeppni fer fram í Las Vegas um helgina.
Það verður mikið um dýrðir þegar fomúlukeppni fer fram í Las Vegas um helgina. Getty/Clive Mason

Úrslitin eru fyrir löngu ráðin í baráttunni um heimsmeistaratitil Formúlu 1 í ár en það engu að síður mikil spenna í formúluheiminum fyrir keppni helgarinnar.

Ástæðan er að þessu sinni verður keppt á götum Las Vegas borgar sem hefur verið draumur margra formúlumanna í fjörutíu ár.

Formúlan ætlar að tjalda öllu til þannig að úr verði kappakstur við stórbrotnar aðstæður. Keppendur munu meðal annars keyra hina heimsþekktu götu Las Vegas Strip.

Þetta hefur verið veðmál hjá formúlunni í sjálfri veðmálaborginni því hún hefur eytt 620 milljónum Bandaríkjadala í það að láta þetta verða að veruleika. Það gera meira en 88 milljarðar í íslenskum krónum.

Forráðamenn formúlunnar þurftu meðal annars að kaupa land fyrir 243 milljónir dollara eða 34 milljarða íslenskra króna.

Það var mikil opnunarhátíð í gær þar sem komu fram stjörnur eins og Kylie Minogue, Andra Day, Keith Urban og Journey auk allra ökumannanna og yfirmanna liðanna.

„Þetta mun líta ótrúlega út í sjónvarpinu og þetta verður líka ógleymanlegt fyrir alla sem mæta þarna sem áhorfendur,“ sagði Stefano Domenicali hjá Formúlu 1.

Keppnin mun fara fram á 6,2 kílómetra braut sem er lögð í gegnum götur Las Vegas en þar af munu tveir kílómetrar af brautinni verða keyrðir eftir Strip götunni þar sem öll stærstu og heimsfrægu spilavítahótelin eru staðsett.

Borgin býst við 105 þúsund áhorfendum á hverjum degi um komandi helgi en hápunkturinn er á sérstökum tíma. Keppnin mun nefnilega fara fram klukkan tíu á laugardalskvöldi að staðartíma sem er klukkan sex á sunnudagsmorgni að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×