Handbolti

Rhein-Neckar Löwen stal sigrinum í Íslendingaslag

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Ýmir Örn í leik gegn Kiel á dögunum.
Ýmir Örn í leik gegn Kiel á dögunum. Vísir/Getty

Stiven Tobar Valencia skoraði fjögur mörk fyrir Benfica er liðið mátti þola eins marks tap gegn Íslendingaliði Rhein-Neckar Löwen í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 35-36.

Benfica og Rhein-Neckar Löwen mættust í þriðju umferð A-riðils Evrópudeildarinnar, en fyrir leikinn sátu Ljónin á toppi riðilsins með fjögur stig, en Bendica í þriðja sæti með tvö stig.

Gestirnir í Rhein-Neckar Löwen voru betri framan af leik og leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 15-19. Heimamenn í Benfica lentu mest átta mörkum undir í síðari hálfleik, en lögðu aldrei árar í bát og minnkuðu muninn jafnt og þétt.

Benfica jafnaði loks metin í stöðunni 31-31 og náði tveggja marka forystu í stöðunni 34-32. Gestirnir snéru taflinu þó við á nýjan leik og unnu að lokum með minnsta mun, 35-36.

Rhein-Neckar Löwen er því enn með fullt hús stiga á toppi A-riðils eftir þrjár umferðir, en Benfica situr í þriðja sæti með tvö stig. Viktor Gísli Hallgrímsson og félagar í Nantes sitja í öðru sæti með fjögur stig eftir góðan sigur gegn Kristianstad fyrr í kvöld, 27-31.

Þá voru aðrir Íslendingar einnig í eldlínunni í Evrópudeildinni í kvöld þar sem Orri Freyr Þorkelsson skoraði þrjú mörk í tveggja marka tapi Sporting CP gegn Tatabanya, 31-29. Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg sem vann eins marks sigur gegn Elverum, 32-33, Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk í þriggja marka sigri gegn Lovcen-Cetinje, 26-29 og Tryggvi Þórisson og félagar í Sävehof völtuðu yfir Pfadi Winterthur, 41-20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×