Handbolti

Ólafur Stefáns­son orðaður við þekkt Ís­lendinga­lið í Þýska­landi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Stefánsson er að bíða eftir nýju starfi og það gæti verið að detta inn.
Ólafur Stefánsson er að bíða eftir nýju starfi og það gæti verið að detta inn. Getty/Ronny Hartmann/p

Ólafur Stefánsson gæti verið að fá nýtt starf í þýska handboltanum og það hjá liði sem þekkir það vel að hafa Íslendinga í sínum röðum.

Ólafur er sagður koma sterklega til greina sem næsti þjálfari þýska b-deildarliðsins EHV Aue en handbolti.is hefur heimildir fyrir þessu.

EHV Aue er að leita að nýjum þjálfara eftir að Stephen Just var rekinn í síðustu viku eftir mjög slaka byrjun liðsins á tímabilinu.

Búist er við því að nýr þjálfari verði tilkynntur í dag eða á morgun. Það verður spennandi að sjá hvort það verði Ólafur. Fái hann starfið bíður hans mjög krefjandi verkefni að halda liðinu í deildinni.

Ólafur var síðast aðstoðarþjálfari hjá HC Erlangen en hætti störfum stuttu fyrir tímabilið.

Íslendingar hafa spilað með EHV Aue í gegnum tíðina en Sveinbjörn Pétursson hefur verið markvörður liðsins frá árinu 2020. Rúnar Sigtryggsson þjálfaði liðið líka í fjögur ár frá 2012 til 2016.

EHV Aue vann sigur á TuS N-Lübbecke um helgina og kom sér þar með af botni b-deildarinnar en þetta var aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu. EHV kom upp úr C-deildinni í vor eftir eins árs veru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×