Körfubolti

„Að missa Harden var það besta sem gat gerst fyrir Philadelphia“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tyrese Maxey hefur blómstrað eftir að James Harden fór frá Philadelphia 76ers.
Tyrese Maxey hefur blómstrað eftir að James Harden fór frá Philadelphia 76ers. getty/Mitchell Leff

Lögmál leiksins verður á sínum stað á Stöð 2 Sport í kvöld. Meðal þess sem verður rætt í þættinum er breytingin á Philadelphia 76ers eftir að James Harden var skipt í burtu.

Eftir langan aðdraganda skipti Sixers Harden til Los Angeles Clippers 1. nóvember. Clippers hefur ekki unnið leik síðan Harden kom á meðan Sixers gengur allt í haginn og er með besta árangurinn í NBA.

Það er ekki síst bakverðinum Tyrese Maxey að þakka. Hann skoraði fimmtíu stig í sigri Sixers á Indiana í gær, 137-126, og er með 28,6 stig að meðaltali í leik á tímabilinu.

„Saga tímabilsins til þessa er Tyrese Maxey. Þetta er ekkert eðlilega mikið stökk. Þetta stökk, sem virðist vera alveg sjálfbært, er ótrúlegt. Hann er að sýna okkur hluti sem ég bjóst ekki við að sjá frá honum,“ sagði Hörður Unnsteinsson.

Klippa: Lögmál leiksins - Umræða um Harden og Sixers

Kjartan Atli Kjartansson er á því að Sixers sé með betra lið eftir skiptin á Harden og auk þess miklu líklegri til afreka í úrslitakeppninni en áður.

„Þeir eru miklu heilbrigðari, miklu líklegri og miklu betri. Að missa Harden var það besta sem gat gerst fyrir Philadelphia,“ sagði Hörður.

Lögmál leiksins verður á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×