Viðskipti innlent

Ráðin fram­kvæmda­stjóri Staf­ræns Ís­lands

Atli Ísleifsson skrifar
Birna Íris Jónsdóttir.
Birna Íris Jónsdóttir. Stjr

Birna Íris Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, en starfið var auglýst í ágúst síðastliðnum. Hún tekur við starfinu af Andra Heiðari Krist­ins­syni sem bættist nýverið í eigendahóp Frumtaks Ventures.

Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins. Þar segir að Birna Íris sé tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands og jafnframt með MBA og nám á meistarastigi í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík, auk diplómu í jákvæðri sálfræði frá EHÍ. 

Undanfarin tvö ár hafi Birna starfað við ráðgjöf á sviði stefnumótunar og upplýsingatækni, auk þess að kenna námskeið í verkefnisstjórnun á meistarastigi við Háskólann í Reykjavík. Þar áður starfaði hún sem forstöðumaður UT reksturs og öryggis hjá Össur hf, rekstrarstjóri UT og stafrænnar þróunar hjá Högum og forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá.

„Efling stafrænnar þjónustu er eitt af forgangsmálum stjórnvalda og markvisst er unnið að því að viðhalda stöðu Íslands í fremstu röð í stafrænni þjónustu með tilheyrandi samfélagslegum ávinningi. Hlutverk Stafræns Íslands er að styðja við stafræna vegferð stofnana og sveitarfélaga. Meðal verkefna Stafræns Íslands er að þróa hugbúnaðarlausnir sem styðja við það hlutverk ásamt því að þróa og reka Ísland.is, Ísland.is appið, Mínar síður Ísland.is og Stafræna pósthólfið. Einnig að tryggja virkni þjónustu þvert á landamæri í alþjóðlegu samstarfi. Stafrænt Ísland er starfseining innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins en vinnur þvert á hið opinbera og starfar náið með ráðuneytum, stofnunum og sveitarfélögum að stafrænum umbótum til að tryggja skýr, einföld og hraðvirk samskipti,“ segir á vef stjórnarráðsins.


Tengdar fréttir

Andri Heiðar í eigendahóp Frumtaks Ventures

Andri Heiðar Kristinsson kemur inn í hóp eigenda Frumtak Ventures og verður fjárfestingastjóri. Undanfarið hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Stafræns Íslands í fjármála- og efnahagsráðuneytinu





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×