Viðskipti innlent

Deloitte og EY fá að renna saman

Árni Sæberg skrifar
Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi.
Þorsteinn Pétur Guðjónsson, forstjóri Deloitte á Íslandi. Vísir/Vilhelm

Samkeppniseftirlitið hefur veitt Deloitte og Ernst & Young (EY) á Íslandi undanþágu til að framkvæma samruna félaganna tveggja á meðan eftirlitið rannsakar samrunann.

Í tilkynningu á vef Samkeppniseftirlitsins segir að eftirlitið hafi haft til rannsóknar kaup Deloitte á eignum og rekstri Ernst & Young (EY) á Íslandi. Málið hafi hafist með forviðræðum og fyrirtækin skilað inn samrunatilkynningu 25. ágúst síðastliðinn.

Þann 30. október hafi Deloitte og EY tilkynnt að fyrirtækin hefðu afturkallað samrunaskrá sína þar sem mikilvægar upplýsingar skorti. Samhliða hafi verið tilkynnt aftur um samrunann og sömu viðskipti með nýrri samrunatilkynningu, nú að teknu tilliti til breyttrar samkeppnisstöðu EY, einkum í tengslum við aðild og samstarf félagsins við EY erlendis. 

Samkeppniseftirlitið hafi tilkynnt fyrirtækjunum að hin nýja samrunaskrá sé fullnægjandi og nýr tímafrestur á fyrsta fasa rannsóknar sé 4. desember næstkomandi. Vefur SE og listi yfir samrunamál hafi verið uppfærður til samræmis við framangreint.

Samtímis hafi fyrirtækin nú óskað eftir undanþágu frá banni við að framkvæma samrunann meðan hann er til rannsóknar. Að virtum sjónarmiðum aðila, fyrirliggjandi upplýsingum, og gögnum um áðurnefndar breytingar á samkeppnisstöðu EY á sennilegum markaði fyrir endurskoðun stærri fyrirtækja, sé það mat Samkeppniseftirlitsins að skilyrði undanþágu séu uppfyllt. 

Samkeppniseftirlitið hafi því veitt Deloitte og EY heimild til þess að framkvæma samrunann meðan fjallað er um hann, með skilyrðum.

Nánari upplýsingar um samrunamálið og málsmeðferðina verði hægt að nálgast síðar í stjórnvaldsákvörðun þegar hún liggur fyrir. Samkeppniseftirlitið muni kappkosta við að rannsaka og afgreiða nýja samrunatilkynningu eins hratt og kostur er.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×