Viðskipti innlent

Páll í Toyota er látinn

Jakob Bjarnar skrifar
Páll í Toyota er allur. Hann beitti sér fyrir margvíslegum góðum málum um dagana svo sem skógrækt.
Páll í Toyota er allur. Hann beitti sér fyrir margvíslegum góðum málum um dagana svo sem skógrækt. steingrímur kristinsson

Páll Breiðdal Samúelsson, fyrrverandi forstjóri Toyota, er látinn. Páll, sem ávallt var kenndur við Toyota var 94 ára að aldri þegar hann skildi við en síðustu árin dvaldi hann að hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka þar sem hann andaðist.

Morgunblaðið greindi frá andláti Páls en þar kemur fram að hann hafi gengið í barnaskóla Siglufjarðar, misst báða foreldra sína aðeins 11 ára gamall og var sendur í vistir á bæjum. Hann komst í nám við Héraðsskólann í Reykholti í Borgarfirði en flutti síðan til Reykjavíkur.

Í Reykjavík sneri Páll sér óskiptur að viðskiptum og eignaðist Japönsku bif­reiðasöl­una. Reksturinn var þungur fyrstu árin en Páll lét hvergi deigan síga og seldi fyrsta Toyota-bílinn 1965. Morgunblaðið hefur eftir Páli að hann hafi fljótt fengið á tilfinninguna að Toyota væru bílar sem Íslendingum líkaði við. Og þar hafði hann rétt fyrir sér. Hann stofnaði ásamt fjölskyldu sinni P. Samúelsson ehf., Toyota-umboðið, 17. júní 1970. Reksturinn gekk blússandi vel en árið 2005 seldi Páll starfsemina. Páll lét til sín taka í umhverfismálum og studdi menningarverkefni í sinni tíð.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Páls er Elín Sigrún Jó­hann­es­dótt­ir en hún er fædd 1934. Börn þeirra eru Jón Sig­urður, f. 1953, versl­un­ar­maður; Bogi Óskar, f. 1962, viðskipta­fræðing­ur, og Anna Sig­ur­laug, f. 1974.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×