Körfubolti

Endur­koma Doncic til Madrid í beinni á Stöð 2 Sport í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luka Doncic er ekki bara elskaður í Dallas heldur einnig í Madrid.
Luka Doncic er ekki bara elskaður í Dallas heldur einnig í Madrid. Getty/Ron Jenkins

Það styttist í NBA deildina í körfubolta og í kvöld mun Dallas Mavericks liðið hita upp fyrir tímabilið með skemmtilegum hætti.

Dallas menn eru nefnilega staddir í miðri Evrópuferð og heimsækja í kvöld spænska stórliðið Real Madrid. Heimamenn í Madrid eru mjög spenntir fyrir þessum leik enda er Luka Doncic þar að mæta sínum gömlu félögum.

Doncic, sem er nú orðinn stórstjarna í NBA-deildinni, steig sín fyrstu spora á stóra sviðinu sem leikmaður Real Madrid. Real fólk lítur á hann sem sinn og hann hefur miklar taugar til félagsins.

Doncic kom til Real Madrid frá Slóveníu árið 2012 þegar hann var aðeins þrettán ára. Hann skrifaði undir fimm ára samning og byrjaði að spila með unglingaliði félagsins. Hann fékk sín fyrstu tækifæri með aðalliði Real Madrid í apríl 2015 og spilaði síðan tvö heil tímabil með aðalliðinu.

Á lokatímabilinu, 2017-18, var hann með 16,0 stig, 4,8 fráköst og 4,3 stoðsendingar í leik í Euroleague. Hann vann Euroleague þá með Real liðinu og var valinn mikilvægasti leikmaðurinn í keppninni. Real varð einnig spænskur meistari þetta tímabil.

Um sumarið fór Doncic í nýliðaval NBA og Dallas Mavericks tók hann með þriðja valrétti. Hann hefur síðan orðið betri og betri með hverju árinu og er orðinn einn allra stærsta stjarna deildarinnar í dag.

Doncic er nú að hefja sitt sjötta tímabil í NBA en á síðustu leiktíð var hann með 32,4 stig, 8,6 fráköst og 8,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Real Madrid tapaði í lokaúrslitum á móti Barcelona á síðustu leiktíð eftir að hafa unnið spænska titilinn tímabilið á undan.

Stærstu stjörnur liðsins er argentínski leikstjórnandinn Facundo Campazzo, landi hans Gabriel Deck, spænsku reynsluboltarnir Rudy Fernández og Sergio Llull, Bandaríkjamaðurinn Edy Tavares, Króatinn Mario Hezonja og bosníski framherjinn Dzanan Musa.

Við hlið Luka hjá Dallas er auðvitað stórstjarnan Kyrie Irving og fleiri öflugir leikmenn.

Leikur Real Madrid og Dallas Mavericks í WiZink Center í Madrid hefst klukkan 18:45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 3.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×