Álftanes leikur á sunnudaginn sinn fyrsta leik í efstu deild þegar nýliðar Subway deildar karla fá Íslandsmeistara Tindastóls í heimsókn í Forsetahöllina.
Í tilefni af þessu sögulega fyrsta tímabili Álftanesliðsins í hópi þeirra bestu þá voru Álftnesingar að gefa út sitt fyrsta stuðningsmannalag í sögunni.
Aðalmennirnir að bak við laginu eru Fannar Ingi Friðþjófsson úr Hipsumhaps og Haukur Heiðar Hauksson úr Diktu. Báðir eru Álftnesingar en Fannar syngur lagið.
Körfuknattleiksdeild Álftaness og hljómsveitin Fjaðrafok kynna því til leiks Svanasönginn, opinbert stuðningsmannalag Álftaness.
Hljómsveitina Fjaðrafok skipa: Fannar Ingi Friðþjófsson, Haukur Heiðar Hauksson, Óskar Logi Ágústsson, Kristinn Þór Óskarsson, Bergur Einar Dagbjartsson og Tómas Jónsson.
Leikur Álftanes og Tindastóls fer fram á sunnudagskvöldið klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 5.