Körfubolti

Tindastóll úr leik eftir tap í Eistlandi

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lærisveinar Pavel Ermolinskij töpuðu gegn BC Trepca í dag.
Lærisveinar Pavel Ermolinskij töpuðu gegn BC Trepca í dag. Vísir/Vilhelm

Lið Tindastóls tapaði gegn BC Trepca frá Kósóvó í undankeppni Evrópubikarsins í körfubolta en leikið var í Eistlandi í dag. Tapið þýðir að liðið á ekki möguleika á að komast í riðlakeppnina.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi nær allan tímann. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 17-16 Stólunum í vil eftir körfu Sigtryggs Arnars Björnssonar undir lok leikhlutans. Stólarnir héldu frumkvæðinu í öðrum leikhluta og náðu að auka forskot sitt sem mest varð átta stig í nokkur skipti í leikhlutanum.

Lið Tindastóls var hins vegar í vandræðum sóknarlega og hökti sóknarleikur liðsins fullmikið á köflum. Vörnin var aftur á móti mjög öflug. Staðan í hálfleik 39-34 Tindastól í vil eftir flautuþrist frá liði BC Trepca rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Lið BC Trepca byrjaði þriðja leikhluta hins vegar afar vel. Liðið náði 9-0 áhlaupi og fyrsta karfa Tindastóls kom ekki fyrr en eftir tæplega fimm mínútna leik í leikhlutanum.

Stólarnir voru enn í vandræðum með að skora en náðu þó forystunni á ný og leiddu 53-50 fyrir síðasta fjórðunginn. Hann fór því miður af stað á svipaðan hátt og þriðji leikhlutinn. Lið BC Trepca náði 18-5 áhlaupi í upphafi og munurinn orðinn tíu stig 68-58 þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir.

Þann mun náðu leikmenn Tindastóls aldrei að brúa. Þrátt fyrir mikla baráttu var það kósóvska liðið sem fór með sigur af hólmi 77-69. 

Þar sem Tindastóll vann sjö stiga sigur á Pärnu Sadam í gær en tapaði með átta stigum í dag á liðið ekki möguleika á að enda í efsta sæti riðilsins, þó svo að lið Pärnu Sadam myndi vinna sigur BC Trepca á morgun og öll liðin þá jöfn að stigum.

Innbyrðis stigaskor í öllum leikjum liðanna myndi þá gilda og þar sem Tindastóll tapaði gegn BC Trepca með meiri mun en liðið vann gegn Pärnu Sadam mun liðið aldrei ná efsta sætinu. Tindastóll er því úr leik í Evrópubikarnum í þetta skiptið.

Stigahæstur í liði Tindastóls í dag var Callum Lawson með 17 stig en Þórir Þorbjarnarson skoraði 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×