Þar kemur fram að með þessu sé síðasta fyrirvara í samningi félaganna aflétt. Áður hafði fyrirvörum um meðal annars áreiðanleikakönnun og fjármögnun þessa þriggja milljarða króna kaupsamnings verið aflétt.
Samhliða kaupsamningi var gerður þjónustusamningur milli félaganna til tólf ára um heildsöluaðgang og þjónustu yfir burðar-og aðgangsneti Ljósleiðarans. Þá var einnig gerður samningur um þjónustu um nettengingu til útlanda.
„Áfanginn í dag er mikilvægur. Samningur okkar við Sýn eflir Ljósleiðarann og það er mikilvægt að það séu að minnsta kosti tvö öflug fyrirtæki að þjóna fjarskiptafélögunum um landið allt. Það skiptir máli fyrir fjarskiptaöryggi og það skiptir máli fyrir samkeppni um þessa þjónustu sem leikur sífellt stærra hlutverk í atvinnulífi og daglegu lífi fólks,“ er haft eftir Einari Þórarinssyni, framkvæmdastjóra Ljósleiðarans.
„Þetta er stór áfangi í löngu ferli og nú fögnum við nýjum vinnufélögum sem fylgja rekstri stofnnets Sýnar yfir til okkar Ljósleiðarafólks. Líkt og við tvinnum netið sem við erum að kaupa saman við okkar, hlakka ég til að efla þjónustu okkar enn frekar í samstarfi við þann góða liðsstyrk,“ segir Einar.
„Það er alveg skýrt í mínum huga að framtíð Ljósleiðarans er björt með öflugum landshring fjarskipta og traustum samningum við fjarskiptafyrirtæki sem tryggja okkur tekjur af þessari og öðrum nauðsynlegum fjárfestingum til að Ísland sé vel undir framtíðina búið.“
Vísir er í eigu Sýnar.