Katla Rún er aðeins sjötti leikmaðurinn sem nær því að spila tvö hundruð leiki fyrir Keflavík í efstu deild.
Það sem gerir þessi tímamót sérstök er að Katla Rún hélt upp á 24 ára afmælið sitt í sumar. Hún ætti því að hafa nægan tíma til að bæta mörgum leikjum við.
Katla hefur spilað með meistaraflokki Keflavíkur frá október 2015 en þetta verður hennar níunda tímabil með Keflavík í úrvalsdeild kvenna.
Tímamótunum nær Katla á móti nágrönnunum í Njarðvík en Keflavík heimsækir Ljónagryfjuna í kvöld.
Katla hefur einnig spilað 32 leiki í úrslitakeppni með Keflavík en hún var í síðasta Íslandsmeistaraliði félagsins árið 2017.
Katla er komin inn á topp tíu hjá Keflavík í stoðsendingum (361 - 10. sæti) og þriggja stiga körfum (150 - 7. sæti) og þá er hún á topp tuttugu í stigum (918 - 20. sæti) og stolnum boltum (152 - 18. sæti).
Leikmennirnir fimm sem hafa spilað fleiri leiki fyrir Keflavík í efstu deild eru Anna María Sveinsdóttir, Birna Valgarðsdóttir, Kristín Blöndal, Marín Rós Karlsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir.
- Leikir Kötlu á móti einstökum félögum
- Valur 30 leikir (15 sigrar - 15 töp)
- Haukar 28 leikir (15 sigrar - 13 töp)
- Breiðablik 22 leikir (19 sigrar - 3 töp)
- Snæfell 20 leikir (13 sigrar - 7 töp)
- Skallagrímur 19 leikir (15 sigrar - 4 töp)
- Grindavík 19 leikir (14 sigrar - 5 töp)
- Stjarnan 16 leikir (9 sigrar - 6 töp)
- Njarðvík 15 leikir (13 sigrar - 2 töp)
- Fjölnir 11 leikir (8 sigrar - 3 töp)
- KR 11 leikir (7 sigrar - 4 töp)
- ÍR 4 leikir (4 sigrar - 0 töp)
- Hamar 4 leikir (3 sigrar - 1 tap)
- Samtals 199 leikir (135 sigrar - 64 töp)