Atvinnulíf

„Síðan var ég auðvitað rekinn þaðan reglulega“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það er ævintýralega gaman að fara yfir starfsferilinn með Bjarna Hauki Þórssyni. Enda sýslar hann í mörgu: Er leikari, leikstjóri, framleiðandi, handritahöfundur, rithöfundur og fyrrum fjölmiðlamaður.
Það er ævintýralega gaman að fara yfir starfsferilinn með Bjarna Hauki Þórssyni. Enda sýslar hann í mörgu: Er leikari, leikstjóri, framleiðandi, handritahöfundur, rithöfundur og fyrrum fjölmiðlamaður. Vísir/Vilhelm

„Ég var ekki einu sinni kominn með bílpróf og viðurkenni svo sem að fyrsti útsendingartíminn minn var ekkert sérstakur. Því ég var á um helgar frá klukkan 03-09 um nótt til morguns,“ segir Bjarni Haukur Þórsson og skellihlær þegar hann rifjar upp þá tíma þegar hann taldist yngsti dagskrárgerðarmaður landsins í útvarpi.

Þetta var á þeim tíma sem einkareknu útvarpsstöðvarnar voru að byrja og hreinlega allir hlustuðu á Bylgjuna eða Stjörnuna.

„Síðan var ég auðvitað rekinn þaðan reglulega. Því það var alltaf verið að hagræða,“ segir Bjarni Haukur hlæjandi og vísar til þess tíma þegar Íslenska útvarpsfélagið sameinaði rekstur Stöðvar 2, Bylgjunnar og Stjörnunnar undir einn hatt en já, gekk oftar en ekki í gegnum brösuga rekstrartíma.

Þegar viðtalið er tekið við Bjarna Hauk er hann á leiðinni niður í Hörpu þar sem hann er að leikstýra barnasýningunni Palli var einn í heiminum sem frumsýnd var á laugardaginn. 

Þá leikur Bjarni sjálfur í sýningunni Pabbinn finnur afann, ásamt félaga sínum Sigurði Sigurjónssyni en þessi gamansýning er vísun í sýninguna Pabbinn þar sem Bjarni Haukur lék aðalhlutverkið árið 2007 og síðan Afinn sem frumsýnd var árið 2011 með Sigurði í aðalhlutverki. Hér er þó um glænýtt verk að ræða.

„Ég bý á Íslandi og í Stokkhólmi, er eiginlega á báðum stöðum. En síðan líka mikið í Danmörku og Noregi,“ útskýrir Bjarni Haukur enda kemur í ljós að starfið hans hefur síðustu árin meira og minna verið erlendis, en aðeins að litlu leyti heima á Fróni.

Bjarni hefur sett upp fleiri sýningar erlendis en hérlendis, en hann hefur framleitt rúmlega 60 sýningar og sjö sjónvarpsseríur. Reglulega kemur Bjarni Haukur þó til Íslands og setur upp nýjar sýningar hér. 

Svona einn og einn róni…

Það er gaman að rifja upp samtímasöguna með Bjarna Hauki, því hann er fæddur árið 1971 og skemmtilegar sögur sem endurspegla hans tíma sem barn.

Til dæmis þann tíma þar sem flest börn störfuðu við það um tíma að bera út blöð eða selja.

Ég fæddist á Eiríksgötunni og er miðborgarbarn. Bar út Moggann og Þjóðviljann í miðbænum og oft hef ég hugsað til þess að þótt ég hafi verið tíu ára að fara niður í miðbæ eldsnemma á laugardags- og sunnudagsmorgnum, þótti engum það neitt tiltökumál. 

Í dag myndum við ekki þora að senda börnin okkar ein þangað,“ 

En þetta var í góðu lagi þá. 

Svona einn og einn róni kannski sem maður sá og nokkrir mávar.

Bjarni bjó reyndar í Svíþjóð með móður sinni og stjúppabba þegar hann var fimm til átta ára og þau fóru þangað í nám. Til Svíþjóðar fluttu þau aftur fljótlega eftir að hann fermdist.

„Um tíma bjuggum við líka á Akureyri og það sem hjálpaði mér mikið alls staðar var að ég var mikið í íþróttum. Í Svíþjóð kunni ég líka tungumálið þegar við fluttum þangað eftir fermingu en síðan fluttum við aftur heim og 15 ára gamall byrjaði ég í æfingadeild Kennaraháskólans og kláraði gaggó þar.“

Þegar útvarpsstöðin Stjarnan auglýsti eftir fólki til starfa, ákvað Bjarni Haukur að slá til. Þó aðeins 16 ára.

„Það voru Þorgeir Ástvalds og Gulli Helga sem tóku mig í einhvers konar raddprufu og það var auðvitað frábært að vera svona ungur og vinna í útvarpinu. Útsendingartímarnir fóru smátt og smátt að verða betri og um tíma vorum við Siggi Hlö með sjónvarpsþættina Popp og kók og Íslenska listann.“ 

Bjarni Haukur var aðeins 16 ára þegar hann varð útvarpsmaður á Stjörnunni, ekki einu sinni kominn með bílpróf! Stjarnan, Bylgjan og Stöð 2 sameinuðust síðan undir hatti Íslenska útvarpsfélagsins og um tíma voru Bjarni Haukur og Siggi Hlö með sjónvarpsþættina Popp og kók og Íslenska listann.

Að leika Hamlet á Broadway

Þótt Bjarni Haukur hefði verið með yfirlýsingar um það í fjölmiðlum að hann myndi eflaust alltaf starfa í þeim geira, var það leiklistin sem kallaði á hann. Enda hafði hann smitast af þeirri bakteríu sem barn í Lundi, Svíþjóð.

Bjarni Haukur fór í leiklistarnám til New York í Bandaríkjunum og bjó þar í fjögur ár.

„Ég sótti um í New York University á meðan ég var enn í MH og þurfti að fara út í prufur. Þeir ráku augun í það að ég væri ekki einu sinni kominn með stúdentinn en hvernig sem þeir svo sem útfærðu það, endaði þetta þó þannig að ég byrjaði í náminu úti áður en ég kláraði MH,“ segir Bjarni Haukur og bætir við:

„Það var frábært að búa í New York og þar sem ég hafði líka sótt um í Amercian Academy of Dramatic Arts flutti ég mig síðar í þann skóla. Að fara svona í nám erlendis kennir manni samt svo mikið á lífið og tilveruna. Maður lærir að spjara sig og lærir svo mikið líka um sjálfan sig.“

Bjarni Haukur eignaðist marga vini úti og er enn í sambandi við nokkra úr þeim vinahópi í dag.

En hvað sástu fyrir þér á þessum tíma; að starfa úti sem leikari eða?

„Já, ætli draumurinn hafi ekki bara verið að leika Hamlet á Broadway,“ svarar Bjarni Haukur og skellir upp úr.

Bjarni Haukur sneri þó aftur til Íslands fljótlega eftir námið úti, byrjaði þá á því að leika sýninguna Standing on my Knees sem sýnd var í Loftkastalanum en stuttu síðar leikstýrði hann sínu fyrsta verki.

Það var sýningin Master Class eftir Terrence McNally sem sýnd var í íslensku Óperunni.

„Sú sýning fékk góðar viðtökur og næst setti ég upp Trainspotting með Ingvari E. Sigurðssyni og fljótlega eftir það var það Hellisbúinn.“

Sem eins og margir muna sló heldur betur í gegn. Í þeirri sýningu lék Bjarni Haukur hlutverk Hellisbúans en Siggi Sigurjóns eins og við þekkjum hann best, leikstýrði.

Síðar snerist hlutverk þeirra félaga við því Bjarni Haukur leikstýrði Sigga í sýningunni Afanum, sem einnig varð framleidd sem kvikmynd og hlaut meðal annars kvikmyndaverðlaunin Golden Reel Awards á Tiburon International Film Festival í Kaliforníu árið 2015.

Alls hafa Bjarni Haukur og Siggi unnið saman að tíu framleiðsluverkefnum en þau eru: Hellisbúinn, Haukurinn, Pabbinn, Afinn, Maður sem heitir Ove, How to become Icelandic in 60 minutes, How to become Swedish in 60 minutes, Pabbinn finnur afann, Hvers virði er ég? og Afinn kvikmynd.

Þótt Bjarni Haukur og Siggi hafi á víxl oft leikstýrt hvor öðrum fengu þeir Guðjón Davíð Karlsson til að leikstýra sýningunni Pabbinn finnur afann.

Bjarni Haukur, sem jafnframt er handritshöfundur og framleiðandi að sýningunni How to become Icelandic in 60 minutes en hún hefur nú verið sýnd í Hörpu frá árinu 2012 og nálgast sýningar því að vera um þúsund talsins.

„Sú sýning var einnig staðfærð síðar fyrir sænska markaðinn og var How to become Swedish in 60 minutes sýnd í Stokkhólmi allt fram að Covid,“ segir Bjarni. 

How to become Finnish in 60 minutes verður frumsýnd í Helsinki á næstunni.

Í fax-sambandi við Hollywood

Bjarni vann um tíma sem markaðsfulltrúi í Sambíóunum og er Alfreð Árnason eigandi enn einn af betri vinum Bjarna. Bjarni Haukur var 26 ára þegar hann setti upp sína fyrstu sýningu en um tíma réði hann sig sem leikara hjá Þjóðleikhúsinu.

„Að mæta til vinnu og lesa upp á töflu í hvaða hlutverki mér var ætlað að leika næst var eitthvað sem ég vissi snemma að ætti ekki við mig. Ég þurfti einfaldlega meiri action.“

Það sem Bjarni Haukur fór hins vegar snemma að gera var að lesa sér til um hin og þessi verk úti í heimi.

Og tryggja sér réttindin.

„Þetta var á þeim tíma sem við vorum með faxið enn þá,“ segir Bjarni Haukur og hlær.

Í flestum tilfellum sækir maður um rétt fyrir sýningar í gegnum réttindaskrifstofur í Svíþjóð eða í Danmörku. 

En þegar að við sömdum um Hellisbúann, þurftum við að semja beint við William Morris umboðsskrifstofuna í Los Angeles. 

Og ég man hvað manni þótti það rosalega töff að vera í fax-sambandi við Hollywood!“

Sjálfur fjárfesti Bjarni Haukur í hlut í réttindaskrifstofu í Danmörku um tíma en alla tíð síðan þetta var, hefur Bjarni Haukur tryggt sér réttinn af ýmsum sýningum fyrir Ísland og Norðurlöndin.

Fyrir vikið hefur Bjarni Haukur sett upp fleiri sýningar erlendis en hérlendis, en hann hefur framleitt rúmlega 60 leiksýningar og sjö sjónvarpsseríur.

Það sem kannski kom boltanum rækilega af stað var þegar Bjarni Haukur í félagi við þá Kristján Ra Kristjánsson og Árna Þór Vigfússon tryggðu sér rétt Hellisbúans á Norðurlöndunum. ,,Hellisbúinn leggur undir sig Norðurlönd“ sagði Morgunblaðið þá í fyrirsögn greinar í blaðinu um áramótin.

En margar sýningar aðrar hafa líka gerst víðreisn.

„Til dæmis var ég með sýninguna Peppa Pig The Musical (ísl. Gurra Grís) á 50 stöðum í Noregi, Maður sem heitir Ove sömuleiðis, Grease í Svíþjóð, Pabbann út um allt Þýskaland og í Chile, Ísrael, Mexikó og víðar. How to become Swedish in 60 Minutes var í Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi og sýnd þar allt fram að Covid,“ segir Bjarni stoltur.

Sem þó er svo hógvær að hann er ekkert að þylja upp öll verkefnin sín. Til dæmis ekki það verkefni að hafa skrifað handritið að sjónvarpsseríunni Hos Martin fyrir TV2 í Noregi. TV2 er stærsta einkarekna sjónvarpsstöð Noregs. sjónvarpsstöð og opin öllum þegar Bjarni Haukur réðist í þetta verkefni. Bjarni Haukur fékk þá leyfi frá höfundi Hellisbúans til að útfæra hugmyndina en serían fjallar um Gunnar sem er sjónvarpskokkur og hefur gaman að því að sýna hvernig á að elda stórar steikur og annan karlalegan mat.

Verkefnið sem Bjarni Haukur segist finnast hvað vænst um að rifja upp er sýningin Grease sem hann leikstýrði í Stokkhólmi 2004.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég setti upp svona stóra sýningu erlendis. Ég þekkti engan en man enn hvað mér leið vel alla morgna þegar að ég vaknaði og hlakkaði til dagsins. Því það er eitthvað svo frábært að fá tækifæri til að kynnast nýju umhverfi, nýju fólki og búa til eitthvað alveg nýtt á stað sem maður gjörþekkir ekki eins og maður gerir kannski hér heima. Ég hef oft, ekki alltaf, skapað mér vinnuaðstæður þar sem ég virkilega þrífst.“

Til að átta sig á umsvifum Bjarna Hauks erlendis má líka nefna að sýningar sem hann hefur sjálfur staðið að sem handritahöfundur, eins og Pabbinn og Afinn, hafa verið sýndar í tuttugu og fimm löndum.

Fyrirtæki Bjarna Hauks heitir Thorsson Productions Ltd. en Bjarni Haukur ákvað fyrir nokkrum árum að sækja sér meistaragráðu í HR, einmitt til þess að afla sér enn meiri þekkingar sem rekstrarmaður.

Bjarni Haukur Þórsson

Lífið og tilveran

Auðvitað hefur ástin bankað upp á eins og gerist hjá flestum og árið 2004 eignaðist Bjarni Haukur soninn Hauk með fyrrum sambýliskonu sinni.

Sýningin Pabbinn, sem frumsýnd var árið 2007, er einmitt sýning sem vísar svolítið í það nýja hlutverk Bjarna í lífinu að verða pabbi. Bjarni Haukur er handritahöfundur og lék hlutverk pabbans, en það fjallar á gamansaman hátt um þá upplifun ungs manns að fara í gegnum meðgöngu, fæðingu og fyrstu skrefum barnanna okkar sem pabbi.

Árið 2014 eignaðist Bjarni Haukur síðan soninn Ólaf.

„Það eru strákarnir mínir, börnin mín, sem standa uppúr hjá mér eins og er eflaust hjá flestum. Ég er ákaflega stoltur af þeim svo ekki sé meira sagt. Ég viðurkenni þó alveg að hafa oft á tíðum verið svo upptekinn og þurft að passa mig á því að gleyma því ekki að ég er foreldri. En koma strákanna er það merkilegasta, stórkostlegasta sem gerst hefur í mínu lífi. Það eru foréttindi að vera foreldri. Ég segi strákarnir mínir, en maður á auðvitað engann. Strákarnir eiga sig sjálfir. Ef það er eitthvað sem ég vil að standi á legsteininum mínum þá er það Faðir. Ég vona að ég muni eiga það inni. Það mikilvægasta sem ég get gefið strákunum er að vera þeim tilfinningalega til staðar, þannig að þeir finni það inni í hjartanu að ég er þeirra, sama hvað. Og ég verð alltaf þeirra. Þess vegna er ég hér.“

Í frítíma segist Bjarni Haukur helst hafa gaman af því að hitta vini og vandamenn, á kaffihúsum, í sundi, á veitingastöðum eða heimboðum. Og síðan finnst honum óskaplega gaman að ferðast.

„Ég hef það fyrir sið í hverju nýju landi sem ég heimsæki að byrja alltaf á því að kaupa mér dagblaðið á hverjum stað. Sem svo sem stundum hefur komið skringilega út. Þegar ég sat eitt sinn á kaffihúsi í Króatíu fyrir mörgum árum og var að reyna að átta mig á því hvað morgunblaðið þeirra væri að fjalla um, talaði þjónustustúlkan bara við mig á króatísku. Og auðvitað leit ég út eins og hálfviti þegar ég síðan skýrði út fyrir henni að ég skildi ekki stakt orð í króatísku.“

Þótt Bjarni Haukur hafi bæði staðið að ýmsum sýningum hérlendis og erlendis og komið að kvikmyndagerð sem framleiðandi og leikstjóri, eru það barnasýningar sem honum finnst hvað mest gefandi.

„Börn eru svo skemmtilegur áhorfendahópur. Þau láta strax í ljós hvað þeim finnst,“ segir Bjarni Haukur og viðurkennir að það sé frábært að upplifa söguna Palli er einn í heiminum í nýju sýningunni sem hann stendur að.

„Þetta er dönsk saga frá árinu 1942 en samt saga sem flest öll börn þekkja í dag. Maður man enn hvaða skelfingartilfinning það var sem barn, að upplifa það í sögunni um Palla þegar hann fattaði hvað það er hræðilegt að vera bara einn í heiminum,“ segir Bjarni og brosir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bjarni Haukur stendur að barnasýningu því enn er í sýningu Karíus og Baktus sem Bjarni Haukur er framleiðandi að ásamt félaga sínum Jóni Þorgeiri. Karíus og Baktus hefur hann einnig framleitt út um alla Svíþjóð.

Í fyrra gaf Bjarni Haukur síðan út sína aðra bók og það barnabókina Þrúður þruma- hvirfilbylurinn frá Nýborg. Bókin fjallar um það hvernig maður lærir að standa með sjálfum sér. Þá hefur Bjarni mörg járn í eldinum. „Ef síminn er ekki farinn að hringja klukkan níu á morgnanna, er eitthvað að!“

En eru ekki einhverjar skemmtilegar sögur til úr leikhúsinu sem þér finnst alltaf gaman að rifja upp?

„Jú, þær eru fjölmargar. Enda er svo ótrúlega gefandi að standa á sviði fyrir framan áhorfendur og í raun forréttindi. Það myndast oft mjög sterkt samband við áhorfendur. Þú eignast þetta móment bara með þeim sem eru gestir það og það kvöldið,“ segir Bjarni Haukur.

Sagan sem Bjarni Haukur rifjar samt upp með okkur sérstaklega, er frá skemmtilegu atviki sem gerðist á sýningu Pabbans í Iðnó.

„Það hringdi síminn hjá manni í salnum og oftast þegar þannig gerist, bregður fólki svo mikið að það slekkur á símanum í hálfgerðu fáti. Þessi maður svaraði hins vegar bara samtalinu og fór að spjalla. Sagðist vera í leikhúsi. Og ég man að ég hugsaði með mér: Guð minn góður….. og hvað kemur svo? Því eflaust segja fáir frá leikhúsferð nema að vera spurð að því hvernig sýningin hafi verið,“ segir Bjarni Haukur og bætir við:

Það voru allir í salnum farnir að hlusta á símtalið og eftir að hann sagðist vera á leiksýningu kom smá þögn en síðan kom:

 Jú, jú, jú…það er bara nokkuð gaman að þessu. 

Og ég hugsaði bara með mér: 

Hjúkk, þarna er þá dómurinn kominn!“


Tengdar fréttir

Sendur ungur til Dan­merkur vegna aga­leysis á Akur­eyri

Fyrir tveimur árum síðan kom netfataverslunin Boozt inn á íslenska markaðinn. Með látum má segja. Velti til dæmis netversluninni Asos úr sessi með markaðshlutdeild á aðeins örfáum vikum. Og samkvæmt frétt Innherja Vísis haustið 2021, versluðu Íslendingar fatnað hjá Boozt fyrir tæpan milljarð fyrsta hálfa árið. „Það ætlaði allt um koll að keyra,“ er kannski orðatiltæki sem ætti vel við hér.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×