Viðskipti innlent

Segir Svan­­dísi beita ríkis­­stofnunum sem pólitískum einka­her­­deildum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. Vísir/Vilhelm

Formaður Miðflokksins sakar matvælaráðherra um að beita ríkisstofnunum sem pólitískum einkaherdeildum sínum. Ráðherra segist einungis hafa viljað flýta fyrir auknu gagnsæi sjávarútvegarins. 

Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag beindi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurningum sínum að Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Ræddi hann um úrskurð Úrskurðarnefndar samkeppnismála sem segir verktakasamning sem matvælaráðuneytið gerði við Samkeppniseftirlitið ekki samræmast hlutverki eftirlitsins.

Samkeppniseftirlitið hafði lagt dagsektir á sjávarútvegsfyrirtækið Brim eftir að fyrirtækið neitaði að afhenda eftirlitinu upplýsingar sem það hafði óskað eftir í samræmi við samning sinn við ráðuneytið.

Sakaði Sigmundur matvælaráðherra um að beita ríkisstofnunum sem pólitískum einkaherdeildum sínum.

„Forstjóri Samkeppniseftirlitsins hefur haldið því fram að hann hafi átti frumkvæði að þessari athugun, þessari ólögmætu ráðstöfun. Hins vegar kemur skýrt fram í gögnum málsins, eins og birtist fyrst í morgunblaðinu, að frumkvæðið hafi komið frá ráðherranum. Frá Matvælaráðuneytinu. Því spyr ég einfaldlega hæstvirtan matvælaráðherra, hvað er satt í þessu?“ spurði Sigmundur.

Svandís segir samninginn hafa komið til vegna fjárskorts stofnunarinnar og benti á að ráðuneyit hafi leyfi til að gera samninga á grundvelli laga um opinber fjármál. Hún hafi viljað flýta fyrir úttekt sem þegar hafði verið skipulögð.

„Af því að hæstvirtur þingmaður talar um lærdóm þá liggur fyrir að það er mikilvægt að það verði ráðist í úttekt sem þessa og það er skýrt að Samkeppniseftirlitið ætlar að gera það eftir sem áður. Krafa um aukið gagnsæi í sjávarútvegi er hávær meðal almennings og ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt að auka gagnsæi og þar með að skapa aukin og bætt skilyrði fyrir traust milli sjávarútvegs og samfélagsins,“ segir Svandís. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×