Viðskipti erlent

ESB sektar TikTok um rúm­lega fimm­tíu milljarða

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
TikTok er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance.
TikTok er í eigu kínverska fyrirtækisins ByteDance. AP

Samfélagsmiðillinn TikTok hefur hlotið sekt upp á rúmlega fimmtíu milljarða króna vegna brota á gagnalögum Evrópusambandsins. Sektin er sú stærsta sem lögð hefur verið á forritið af eftirlitsaðilum. 

Írska persónuverndarstofnunin, sem hefur forystueftirlitsyfirvald með forritinu innan Evrópusambandsins, hefur gefið það úr að miðillinn hafi margsinnis brotið persónuverndarreglur ESB á tímabilinu 31. júlí 2020 til 31. desember 2020. 

Til að mynda hafi sjálfgefnar öryggisstillingar reikninga sem tilheyrðu börnum á aldrinum þrettán til sautján ára ekki verið fullnægjandi. Þeir reikningar hafi verið sjálfvirkt stilltir sem „opnir almenningi“ þegar þeir voru búnir til.

Forsvarsmenn samfélagsmiðilsins segjast ósammála sektinni, sér í lagi upphæð hennar. Þá segja þeir gagnrýnina ekki skipta lengur máli, en árið 2021 hafi friðhelgisstillingar á TikTok-reikningum barna sextán ára og yngri verið breytt til þess að tryggja aukið öryggi barna á forritinu. Eftir það hafi persónuverndarrannsóknin hafist.

Þrátt fyrir það segja þeir að til standi að uppfæra persónuverndarstefnu forritsins enn frekar, þannig að sjálfvirk stilling allra reikninga sem stofnaðir eru af börnum yngri en átján ára tryggi að reikningurinn sé lokaður almenningi. 

Forritið er ekki það fyrsta til þess að hljóta sekt vegna brota á persónuverndarlögum. Til að mynda hlaut Meta, móðurfélag samfélagsmiðlanna Facebook og Instagram sekt frá persónuverndaryfirvöldum ESB upp á 183 milljarða króna í maí. Einungis fjórum mánuðum eftir að fyrirtækið hlaut sams konar sekt frá sömu stofnun. 


Tengdar fréttir

ESB sektar Meta um 183 milljarða króna

Evrópusambandið hefur sektað Meta, móðurfélag Facebook, um 1,3 milljarða bandaríkjadala, um 183 milljarða króna, fyrir að hafa sent persónuupplýsingar evrópskra notenda til Bandaríkjanna.

ESB sektar Meta um sextíu milljarða

Persónverndaryfirvöld innan Evrópusambandsins segja að Meta, eigandi Facebook, Instagram og annarra samfélagsmiðla, megi ekki byggja það hvaða auglýsingar notendur sjá á upplýsingum um netnotkun þeirra. Þetta var niðurstaða sérstakrar nefndar um vernd persónuupplýsinga á Írlandi sem segir auglýsingarnar brjóta gegn lögum Evrópusambandsins.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.