Viðskipti innlent

Ingvar tekur við af Pétri Má hjá Nox Medi­cal

Atli Ísleifsson skrifar
Ingvar Hjálmarsson og Pétur Már Halldórsson.
Ingvar Hjálmarsson og Pétur Már Halldórsson. Aðsend

Ingvar Hjálmarsson hefur tekið við sem framkvæmdastjóri íslenska hátæknifyrirtækisins Nox Medical. Hann tekur við keflinu af Pétri Má Halldórssyni sem leitt hefur félagið síðan 2011 og tekur Pétur á sama tíma sæti í stjórn Nox Health.

Frá þessu segir í tilkynningu. Þar segir að Ingvar hafi starfað hjá Nox síðastliðin tíu ár og setið í framkvæmdastjórn sem einn af lykilstjórnendum félagsins. Hann hafi haft yfirumsjón með stefnumótun, vörustýringu, markaðsmálum og umbreytingum og sé með tæplega tuttugu ára reynslu sem stjórnandi í vaxtarfyrirtækjum og hafi leitt margar umbreytingar á sínum ferli.

„Pétur Már leiddi félagið þegar það markaði sér stöðu sem fremsta fyrirtæki heims í framleiðslu lækningatækja til svefnrannsókna. Á þeim tíma fjörutíufaldaði félagið tekjur sínar, úr 1 milljón evra í 40 milljónir evra. Starfsmenn Nox Medical telja nú um 120 manns. Pétur leiddi félagið einnig í gegnum árangursríkan samruna við systurfélag Nox Medical í Bandaríkjunum árið 2019 og tók þannig þátt í að skapa Nox Health – leiðandi fyrirtæki í svefnheilbrigðismálum á heimsvísu. Við samrunann gerðist Sigurjón Kristjánsson forstjóri Nox Health og Nox Medical varð sjálfstæð rekstrareining innan þess,“ segir í tilkynningunni.

Um Nox Medical segir að það sé íslenskt hátæknifyrirtæki sem þrói og framleiði mælitæki, hugbúnað, skýjalausnir og gervigreind sem notuð séu af læknum og heilbrigðisstarfsfólki til að mæla lífsmörk í svefni og greina svefnraskanir og svefnsjúkdóma. „Fyrirtækið starfar á alþjóðamarkaði og er leiðandi fyrirtæki á sviði lækningatækja í svefni. Nox Medical er partur af Nox Health, sem er leiðtogi á heimsvísu í svefnheilbrigðislausnum. Árlega fá yfir tvær milljónir einstaklinga greiningu og lausn sinna svefnsjúkdóma með lausnum félagsins,“ segir um fyrirtækið. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×