Um­­fjöllun og við­töl: Valur - FH 27-26 | Valur skellti meistara­efnunum

Hinrik Wöhler skrifar
Aron Pálmarsson á ferðinni í kvöld. Hann fann sig ekki í leiknum.
Aron Pálmarsson á ferðinni í kvöld. Hann fann sig ekki í leiknum. vísir/diego

Valur tók á móti FH í annarri umferð Olís-deildar karla á Hlíðarenda í kvöld. Leikurinn endaði með eins marks sigri Valsmanna, 27-26.

Gömlu sam­herjararnir úr lands­liðinu, Alexander Peter­son og Aron Pálmars­son, áttust við í Origo-höllinni og fengu á­horf­endur að sjá spennandi leik frá upp­hafi til enda.

Fyrri hálf­leikur fór hratt af stað og var mikið skorað í upp­hafi leiks. Jafnt var á flestum tölum framan af. Vals­menn urðu fyrir á­falli eftir rúm­lega tíu mínútna leik þegar Bene­dikt Óskars­son fékk beint rautt spjald fyrir að skjóta í and­litið á Daníel Frey Andrés­syni sem var í marki FH úr víta­kasti. Vals­menn voru ekki sáttir með dóminn og vildu meina að Daníel hafi hreyft sig meira en reglur segja til um.

Eftir rauða spjaldið kom að­eins meiri kraftur í gestina frá Hafnar­firði og þeir leiddu fyrri hálf­leik lengst af og var Daníel Freyr vel á verði í markinu og gerði Vals­mönnum lífið leitt. Heima­menn fundu þó að­eins betri takt þegar leið á fyrri hálf­leik og náðu loks að jafna í 15-15 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálf­leik.

FH átti loka­sóknina í fyrri hálf­leik sem þeir nýttu og leiddu gestirnir í hálf­leik með einu marki, 17-16.

Gestirnir byrjuðu seinni hálf­leikinn betur og var staðan 20-17, FH í vil, eftir 40. mínútna leik. Þá hrökk mark­vörður Vals, Björg­vin Páll Gústavs­son, í gang og lokaði markinu. Vals­menn gengu á lagið og skoruðu nokkur hraða­upp­hlaups­mörk og jöfnuðu leikinn. Heima­menn náðu að halda naumu for­skoti út leikinn og gátu hrósað sigri þegar loka­flautan gall.

Loka­tölur á Hlíðar­enda voru 27-26, Val í vil. Magnús Óli Magnús­son leiddi sóknar­leik heima­manna og skoraði sjö mörk í kvöld á­samt því að fiska fjögur víti. Einn af nýju leik­mönnum leik­menn Vals, Viktor Sigurðs­son, kom sprækur inn í sóknar­leik Vals undir lokin og var næst­marka­hæstur með þrjú mörk á­samt Vigni Stefáns­syni.

Af hverju vann Valur?

Leikurinn snerist við þegar tuttugu mínútur voru eftir. FH-ingum gekk erfið­lega að koma boltanum í netið og Vals­menn náðu nokkrum mikil­vægum mörkum úr hraða­upp­hlaupum. Þó að Daníel Freyr í marki FH reyndi sitt besta að halda sínum mönnum inn í leiknum þá náðu gestirnir ekki að koma til baka og naumur sigur Vals­manna stað­reynd.

Hverjir stóðu upp úr?

Í sóknar­leik Vals­manna var það Magnús Óli Magnús­son sem dró vagninn. Hann var marka­hæstur og fiskaði fjögur víti. Hinum megin á vellinum stóð Björg­vin Páll Gústavs­son vaktina með miklum sóma og lokaði markinu í síðari hálf­leik.

Björgvin Páll var öflugur í markinu í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

FH-ingar geta ekki kvartað undan mark­vörslunni í leiknum en Daníel Freyr Andrés­son varði sau­tján skot og var fremstur með jafningja hjá gestunum.

Hvað gekk illa?

FH fékk fjöl­mörg tæki­færi í síðari hálf­leik til að jafna og koma sér al­menni­lega inn í leikinn en skot­nýting liðsins á mikil­vægum kafla í leiknum var slæm. Það er helsta á­stæðan fyrir því að liðið þurfti að þola tap í kvöld.

Hvað gerist næst?

Það er ellefu daga bið í næsta deildar­leik hjá liðunum. Valur á úti­leik á móti Sel­foss í þriðju um­ferð á meðan FH fær ný­liða Víkings í heim­sókn í Kapla­krika. Báðir þessir leikir fara fram föstu­daginn 22. septem­ber.

Næstu verk­efni liðanna er í Bikar­keppni Evrópu en Vals­menn mæta Granitas-Karys frá Litháen á laugar­dag og sunnu­dag. Á sama tíma fer FH til Grikk­lands þar sem liðið mætir Diomi­dis Argous í tveimur leikjum ytra.

Óskar Bjarni: „Þetta var al­vöru hand­bolta­leikur“

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari ValsVísir/Pawel Cieslikiewicz

Óskar Bjarni Óskars­son, þjálfari Vals, var að vonum glaður með sigurinn þótt hann hafi staðið tæpt.

„Þetta var al­vöru hand­bolta­leikur og tvö frá­bær lið. Auð­vitað mun skemmti­legra að vinna, lýg því ekki,“ sagði Óskar.

Snemma í leiknum fékk Bene­dikt Óskars­son rautt spjald sem Vals­menn voru ekki sáttir með. Var Óskar sam­mála dómnum?

„Ég treysti dómurunum fyrir þessu, þessar reglur eru oft að breytast. Ég hélt að maður þurfti að vera alveg kyrr. Hann beygir sig og það eru á­kveðnar reglur um þetta og ég ætla ekki að vera tjá mig um þetta. Þetta var mjög gott og hollt fyrir okkur að spila án hans [Bene­dikts Óskars­sonar] og gera það vel.“

Seinni hálf­leikur gekk betur fyrir Vals­menn eftir að hafa verið undir framan af. Óskar var sáttari með spila­mennskuna þegar leið á leikinn.

„Þetta eru mörg dauða­færi sem Björg­vin ver og þessi mark­varsla hefur auð­vitað mikið að segja. Við komum með á­kveðna breidd í vörnina, við komum með Róbert Aron og Alexander Peter­son í vörnina. Við náum að rúlla vel og FH líka. Mér fannst við ná að hlaupa betur til baka og þeir skora sjö til átta mörk í fyrri hálf­leik sem mér fannst full auð­veld en við náðum að loka betur á þau í seinni,“ sagði Óskar Bjarni.

Aron Pálmars­son náði sér ekki al­menni­lega á strik í marka­skorun í kvöld en hann skoraði tvö mörk úr átta til­raunum. Óskar Bjarni var að vonum sáttur með varnar­leikinn í heild sinni í kvöld.

„Þeir eru með marga frá­bæra leik­menn ef það er lokað á hann, þá er hann með stoð­sendingar. Hann er frá­bær leik­maður og erfitt að taka Aron alveg út en í sjálfu sér gekk þetta á­gæt­lega í dag.“

Magnús Óli: „Við vorum fimm mínútur að átta okkur á þessu“

Magnús Óli, leikmaður Vals, lætur vaða í átt að marki FH í leik liðanna í 2. umferð Olís deildar karla í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Marka­hæsti maður vallarins, Magnús Óli Magnús­son, var í skýjunum eftir sigurinn í kvöld.

„Hrika­lega sáttur, þetta var stál í stál og jafnt nánast allan tímann. Þeir leiða með nokkrum í seinni en við sýnum karakter og komum til baka og náðum að halda þessu út. Þetta var bara gæða­hand­bolti, bæði í sókn og vörn,“ sagði Magnús Óli.

Magnús viður­kennir að Vals­menn voru slegnir út af laginu í skamma stund eftir rauða spjaldið í upp­hafi leiks.

„Ég veit það ekki hvort þetta var rautt eða ekki rautt. Þeir ná góðum takti og við erum slegnir eftir þetta, eftir að hafa misst okkar helsta miðju­mann og marka­skorara út af vellinum. Við náðum að stilla okkur af og það voru fluttir gæjar sem stigu upp í dag í staðinn. Við vorum fimm mínútur að átta okkur á þessu og þá kom góður taktur í þetta,“ sagði Magnús.

Fram­undan er Evrópu­verk­efni hjá Vals­mönnum og halda þeir til Litháen í vikunni.

„Leggst hrika­lega vel í mig og gaman að fara í eitt­hvað sem tengist Evrópu. Eftir tíma­bilið í fyrra spiluðum við ein­hverja tólf leiki í Evrópu og gaman að finna lyktinni af Evrópu­keppni aftur og fara að­eins út og ferðast með strákunum. Ég er mjög spenntur fyrir því,“ sagði Magnús Óli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir


    Fleiri fréttir

    Sjá meira
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.