Viðskipti innlent

Telja skipa­fé­lögin hafa valdið stór­felldu tjóni með sam­ráði

Kjartan Kjartansson skrifar
Flutningaskip Samskipa í höfn í Reykjavík. Auk samráðsins eru Samskip sökuð um að veita Samkeppniseftirlitinu rangar, villandi og ófullnægjandi upplýsingar.
Flutningaskip Samskipa í höfn í Reykjavík. Auk samráðsins eru Samskip sökuð um að veita Samkeppniseftirlitinu rangar, villandi og ófullnægjandi upplýsingar. Vísir/Vilhelm

Sterkar vísbendingar eru um að ólöglegt samráð skipafélaganna Samskipa og Eimskipa hafi valdið fyrirtækjum í innflutningi og útflutningi stórfelldu tjóni, að mati Félags atvinnurekenda. Félagið hefur hvatt félagsmenn sína til þess að kanna hvort þau fái tjón sitt bætt frá félögunum.

Samkeppniseftirlitið sektaði Samskip um 4,2 milljarða króna fyrir ólöglegt samráð við Eimskip og alvarleg samkeppnislagabrot. Sektin er sú hæsta sem um getur. Fyrirtækin eru sögð hafa hækkað eða haldið uppi verði til viðskiptavina sinna með samráðinu.

Í tilkynningu Félags atvinnurekenda er því haldið fram að samráðið kunni að hafa orðið til þess að innflutnings- og útflutningsfyrirtæi hafi þurft að greiða mun hærra verð fyrir flutninga en ef eðlileg samkeppni hefði ríkt á flutningamarkaði. Því hvetur það félagsmenn til að kanna stöðu sína gagnvart skipafélögunum.

Margar ábendingar hafi borist félaginu um verðhækkanir á sjóflutningum, ógegnsæjar verðskrár stóru skipafélaganna og lítt rökstudd aukagjöld. Viðskiptavinum sé mismunað þannig að erlendir birgjar fái betri tilboð í sömu flutninga en íslenskir innflytjendur.

Lögmaður viðskiptavina skipafélaganna hafi krafið Samkeppniseftirlitið um aðgang að göngum málsins gegn Samskipum, þar á meðal hvað varðar meinta skiptingu markaða eftir stærri viðskiptavinum, álagningu gjalda og aflsáttarkjör í flutningaþjónustu. Það sé fyrsta skrefið í að sækja bætur fyrir tjón viðskiptavinanna. Nokkur fyrirtæki kanni nú þegar stöðu sína og fleiri bætist líklega í hópinn á næstu dögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×