Viðskipti innlent

Vegan búðinni lokað en eigandinn trúir á kraftaverk

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Vegan búðin hefur verið sögð stærsta vegan dagvörubúð heims.
Vegan búðin hefur verið sögð stærsta vegan dagvörubúð heims. Vísir/Vilhelm

Vegan búðinni í Skeifunni í Reykjavík verður lokað á næstunni. Eigandi matvöruverslunarinnar segir ástæðuna vera hátt leiguverð og krefjandi aðstæður til innflutnings. Hann trúi þó á kraftaverk.

Verslunin var opnuð árið 2019 í Skeifunni þar sem verslun Bónus var áður til húsa. Hefur þar eingöngu verið boðið upp á vegan matvörur, það er engar dýraafurðir. Eigendaskipti urðu í júní þegar Vegan Junk ehf. festi kaup á búðinni.

Undir færslu á Facebook-hópnum Vegan Ísland segir Daniel Ivánovics, eigandi búðarinnar, að ýmislegt komi til.

„Við þyrftum 2,2 sinnum meiri tekjur en við höfum núna til þess að geta borgað leigu,“ skrifar Daniel og heldur áfram:

„Innflutningur hefur verið ótrúlega krefjandi, að sex mánuðum liðnum hefðum við getað bætt úrvalið til muna en við höfum runnið út á tíma.

Áform mín til þess að bjarga rekstrinum áttu að fara loks af stað í næstu viku en ég hef hætt við þau þar sem við erum nú þegar of nálægt endalokunum, enn og aftur höfum við ekki nægan tíma.“

Hann segir áframhaldandi rekstur Vegan búðarinnar og Junkyard vera áhættu. 

„Enginn veit hvað mun gerast. Þetta gæti þróast í ýmsar áttir og lausnir sem gætu þróast en við verðum bara að bíða og sjá.“ 

Loks segir Daniel að út ágústmánuð verði búðin lokuð á sunnudögum, mánudögum og þriðjudögum.

„Við lögðum allt í þetta, veðjuðum á rauðan en stundum sigrar húsið. Ég trúi samt á kraftaverk,“ skrifar Daniel að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×