Viðskipti innlent

Alda kveður Sýn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Alda Sigurðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn, hefur óskað eftir því að láta af störfum.
Alda Sigurðardóttir, fráfarandi framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn, hefur óskað eftir því að láta af störfum. Sýn

Alda Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Sýn hf., hefur óskað eftir því að láta af störfum. Hún var ráðin sem framkvæmdastjóri í nóvember síðastliðnum.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá Sýn.

„Alda hóf störf hjá Sýn í byrjun árs 2022 og hefur verið í lykilhlutverki í þeim breytingum sem félagið hefur farið í gegnum síðasta árið. Það er eftirsjá í Öldu en við óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi og þökkum henni kærlega fyrir samstarfið“ sagði Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, í tilkynningunni.

Þá segir einnig í tilkynningunni að mannauður færist undir „Nýsköpun og Rekstur“ hjá Sýn. Það fækkar því um einn í framkvæmdastjórn Sýnar.

„Sýn er á sóknarvegferð sem felur í sér umfangsmiklar breytingar á þjónustu við viðskiptavini, endurbætur á innri ferlum, kerfum og rekstri. Mannauður spilar lykilhlutverk í þessari breytingarvegferð fyrirtækisins og því ánægjulegt að fá þá öflugu aðila sem þar starfa til liðs við sterkt teymi starfsmanna Nýsköpunar og rekstrar“, sagði Hulda Hallgrímsdóttir, framkvæmdastjóri Nýsköpunar og Rekstrar hjá Sýn, í tilkynningunni.

Reynslumikill stjórnandi

Alda var ráðin sem framkvæmdastjóri mannauðs í nóvember síðastliðnum en hafði fyrir það unnið sem mannauðsstjóri Sýnar síðan í mars 2022. Þar áður starfaði hún sem stjórnendaþjálfari í eigin fyrirtæki Vendum í ellefu ár. 

Fyrir það starfaði hún sem aðstoðarmaður rektors Háskólans í Reykjavík og þar á undan sem kynningar- og samskiptastjóri skólans. Alda starfaði sem viðskiptastjóri hjá fyrirtækinu SJÁ, fræðslustjóri VR og stundakennari við viðskiptadeild Háskóla Íslands.

Alda er menntaður stjórnmála- og atvinnulífsfræðingur frá Háskóla Íslands, lauk námi í stjórnendamarkþjálfun frá Opna Háskólanum í HR og Corporate Coach University ásamt því að vera með MBA gráðu frá HR.

Vísir er í eigu Sýnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×