Viðskipti innlent

Skipu­lags­breytingar kostuðu Festi 154 milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi.
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi. Stöð 2/Egill

Einskiptiskostnaður Festi vegna starfsloka tengdum skipulagsbreytingum á öðrum ársfjórðungi nam 154 milljónum króna. Vörusala félagsins jókst um 14,2 prósent milli ára á tímabilinu.

Þetta kemur fram í uppgjöri Festi fyrir annan ársfjórðung ársins. Vörusala nam 34.199 milljónum króna samanborið við 29.936 milljónir króna árið áður og jókst um 14,2 prósent milli ára.

Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 7.756 milljónum króna og jókst um 431 milljarða, eða 5,9 prósent, á milli ára. Framlegðarstig nam 22,7 prósent og hækkar um 1,6 prósentustig frá síðasta ársfjórðungi en er 1,8 prósentustigum lægra en árið áður.

Laun og starfsmannakostnaður eykst um 21,4 prósent milli ára en stöðugildum fjölgar um 9,7 prósent vegna opnunar nýrra verslana á seinni helmingi síðasta árs. Þá nam einskiptiskostnaður 154 milljónum króna vegna starfsloka tengdum skipulagsbreytingum á ársfjórðungnum.

Sjö létu af störfum og tvö voru ráðin til félagsins í skipulagsbreytingum í lok maí. Þá voru ýmis svið sameinuð.

EBITDA, hagnaður fyrir vexti, skatta og afskriftir, nam 2.562 milljónum króna samanborið við 2.911 milljónum króna á sama tímabili í fyrra, sem er lækkun um 349 milljónir króna.

Eigið fé í lok ársfjórðungsins nam 33.641 milljónum króna og eiginfjárhlutfall 35,5 prósent samanborið við 36,9 prósent í árslok 2022. Handbært fé frá rekstri nam 2.859 milljónum króna samanborið við 476 milljónir árið áður.

EBITDA afkomuspá fyrir árið er óbreytt og nemur 9.750 – 10.250 milljónum króna.

Bæting þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi

„Við höfum bætt reksturinn frá fyrsta ársfjórðungi ársins 2023 þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi vegna áhrifa verðbólgu, vaxta- og launahækkana og áframhaldandi verðhækkana á aðföngum. Vörusala jókst um 14,2% en umtalsverð aukning var í magni í dagvörusölu, eldsneytissölu og sölu á raftækjum. Fjöldi heimsókna viðskiptavina milli ára vex um 12,4,% fjöldi seldra vara um 12,8% og fjöldi seldra lítra eldsneytis eykst um 8,7%“ er haft eftir Ástu S. Fjeldsted, forstjóra Festi, í fréttatilkynningu vegna uppgjörsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×