Körfubolti

Denver Nuggets í frábærri stöðu eftir sigur í nótt

Jón Már Ferro skrifar
Bam Adebayo, leikmaður Miami Heat sækir að körfunni en Nikola Jokic, leikmaður Denver Nuggets, reynir að koma í veg fyrir að Adebayo skori.
Bam Adebayo, leikmaður Miami Heat sækir að körfunni en Nikola Jokic, leikmaður Denver Nuggets, reynir að koma í veg fyrir að Adebayo skori. vísir/getty

Denver Nuggets er komið í 3-1 forystu í einvígi sínu gegn Miami Heat eftir leik liðanna í nótt. Denver vann leikinn 108-95.

Þrátt fyrir þrettán stiga sigur þá munaði ekki miklu á liðunum í fjórða leikhlutanum. Miami minnkaði muninn niður í sjö stig þegar tæpar níu mínútur voru eftir. Allt kom fyrir ekki og Denver tryggði að lokum mikilvægan sigur.

Aaron Gordon var stigahæstur með 27 stig og Nikola Jokic skoraði 23. Denver er komið í frábæra stöðu og getur með sigri í næsta leik tryggt sér NBA titilinn í fyrsta skipti í 27 ár.

Þrátt fyrir stöðuna segir þjálfari Denver, Michael Malone, að þeir séu ekki búnir að vinna neitt enn þá og hélt leikmönnum sínum á tánum.

Jamal Murray, leikmaður Denver, var eðlilega mjög ánægður og sagði sigurinn vera sannkallaðan liðssigur.

„Ég get ekki nefnt neitt sérstakan. Það lögðu allir sitt af mörkum en við eigum einn leik eftir,“ segir Murray.

Besti leikmaður Miami í gær var Jimmy Butler en hann skoraði 25 stig. Hann var mjög meðvitaður um stöðuna sem liðið væri komið í.

„Núna erum við í þannig stöðu að við þurfum að vinna alla leikina. Það er ekki ómögulegt og við getum það,“ segir Butler.

Liðin spila næst á mánudaginn og verður leikurinn í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikinn hefst á miðnætti en leikurinn sjálfur hálftíma síðar. 

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.