Viðskipti innlent

Þórhallur hættir hjá Sýn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórhallur Gunnarsson hefur starfað hjá Sýn frá því í maí 2019.
Þórhallur Gunnarsson hefur starfað hjá Sýn frá því í maí 2019. Sýn

Þórhallur Gunnarsson hefur sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri fjölmiðla Sýnar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar. Hann segir átök um eignarhald hjá félaginu hafa fengið hann til að velta stöðu sinni fyrir sér.

„Þórhallur hefur starfað síðustu fjögur ár sem framkvæmdastjóri Fjölmiðla Sýnar og hefur á þeim tíma umbreytt fjölmiðlastarfsemi félagsins til hins betra og vill félagið þakka honum kærlega fyrir hans framlag,“ segir í tilkynningunni.

Upplýsingar um framtíðar skipulag fjölmiðlana verði tilkynnt þegar það liggur fyrir. Þórhallur verði í ráðgjafahlutverki fyrir félagið næstu mánuði.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar, segir í tilkynningu til starfsmanna fyrirtækisins að mikil eftirsjá sé af Þórhalli sem hafi leitt umbreytingu á fjölmiðlastarfseminni okkar síðustu ár í samvinnu við mjög öfluga stjórnendur og starfsfólk miðlanna.

Yngvi Halldórsson, forstjóri Sýnar.Sýn

„Vísir er núna vinsælasti vefmiðill landsins, útvarpsstöðvarnar okkar eru þær öflugustu á landinu og tekjur á báðum þessum miðlum hafa vaxið mikið undanfarin misseri með öflugri starfsemi auglýsingadeildar. Áskriftastöðvarnar okkar Stöð 2, Stöð2+ og Stöð 2 Sport eru daglegir gestir hjá tugþúsundum viðskiptavina og það fyllir okkur miklu stolti að fylgjast með fagmennskunni og gæðum í allri okkar dagskrárgerð. Þetta frábæra starf mun halda áfram og öflugir forstöðumenn allra eininga munu halda áfram á sömu braut,“ segir Yngvi og áréttar að Þórhallur verði áfram hjá fyrirtækinu í hlutverki ráðgjafa næstu mánuði.

Þórhallur hefur tjáð sig um starfsflokin á Facebook-síðu sinni. Þar segir hann átök um eignarhald í Sýn haustið 2022 sem leiddu til breytinga á stjórn félagsins hafi fengið hann til að hugsa hvort ekki væri rétt að huga að starfsflokum. Hann hafi ekki talið rétt að gera það á miðjum vetri en nú sé rétti tíminn.

Færslu Þórhalls í heild má sjá að neðan.


Kæra samstarfsfólk, kæru vinir...!

Í haust voru átök um eignarhald í Sýn sem leiddu til breytinga á stjórn félagsins. Þessu umskipti fengu mig til þess að hugsa hvort ég ætti ekki að huga að mínum eigin starfslokum hjá fyrirtækinu.

Mér fannst ekki tímabært að gera það á miðjum vetri enda erfitt að slíta sig frá jafn mögnuðu fólki og vinnur á fjölmiðlum Sýnar.

Núna er að mínu mati rétti tímapunkturinn og tilkynnti ég forstjóra félagsins ákvörðun mína í dag. Ég hverf þó ekki strax á braut heldur verð til ráðgjafar hjá fjölmiðlunum næstu mánuði.

En snúum okkur að því sem mestu máli skiptir. Samstarfsfólk mitt í fjölmiðlum fyrirtækisins hefur í einu orði sagt verið stórkostlegt og ég hugsa til þeirra með hlýju og þakklæti.

Það skiptir engu hvar borið er niður, hvort sem er á Stöð 2, Stöð 2 Sport, Fréttastofu, Vísi, útvarpi, auglýsingadeild, markaðsdeild, framleiðsludeild, dagskrárdeild, vöruþróun eða tæknideildum. .… Allt þetta einstaka fólk starfar af einskærri fagmennsku og ástríðu fyrir fjölmiðlum fyrirtækisins og hefur sýnt ótrúlega samheldni hvort heldur í meðbyr eða andstreymi.

Áskriftarstöðvarnar Stöð 2, Stöð 2+ og Stöð 2 Sport hafa sýnt mátt sinn með gríðarlega öfluga innlenda dagskrárgerð í forgrunni og fyrir vikið hefur áskrifendum fjölgað mikið.

Fréttastofan hefur sjaldan verið kraftmeiri, Vísir er vinsælasti vefmiðill landsins, mikill meirihluti þjóðarinnar hlustar daglega á útvarpsstöðvar okkar og hlaðvarpsveitan Tal er í miklum vexti.

Ég er ákaflega stoltur af þeim árangri sem við höfum náð á þessum fjórum árum. Reksturinn er traustur og tekjur hafa aukist sem sýnir að hægt er að reka fjölmiðil á Íslandi með sóma.

Ég hef oft hugsað hversu heppinn ég hef verið með samstarfsfólk í gegnum árin, hvort sem það er á RÚV, Sagafilm eða hjá fjölmiðlum Sýnar.

Líklega er mín mesta gæfa að njóta þess að starfa með fólki sem er betra en ég á öllum sviðum.

Góðum árangri fjölmiðlanna get ég bara þakkað því dásamlega fólki fjölmiðlanna sem hefur staðið við bakið á mér í gegnum þykkt og þunnt þessi ár. Þessi drifkraftur, heiðarleiki, gleði og hlýja sem einkennir þau öll er lykillinn að góðum árangri.

Mig langar að nefna yfir 200 einstaklinga en læt duga að nefna leiðtoga hvers fjölmiðils fyrir sig sem ég veit að munu halda áfram að styðja okkar hæfileikaríka fólk með sama metnaði og hingað til.

Eva Georgs, Erla Björg, Þóra Clausen, Eiríkur Stefán, Mariam Laperashvili, Kolbrún Dröfn, Þórdís Valsdóttir, Kolbeinn Tumi, Kristín Kristinsdóttir, Ívar Guðmundsson og Auðun Bragi.

Fjölmiðlar Sýnar munu halda áfram að vaxa og dafna með þetta fólk í fararbroddi og framtíð þeirra er svo sannarlega björt.

Kæru félagar…! Það hefur verið draumi líkast að starfa með ykkur…! Nú ætla ég að láta aðra drauma rætast…!


Vísir er í eigu Sýnar.


Tengdar fréttir

Jón Skaftason nýr stjórnarformaður Sýnar

Jón Skaftason, forsvarsmaður Gavia Invest, er nýr stjórnarformaður Sýnar. Þrír af fimm stjórnarmönnum eru hluti af hópi einkafjárfesta sem hafa eignast stóran hlut í fyrirtækinu. Hluthafafundur fór fram í morgun.

Reynir reynir ekki aftur við stjórnar­­sæti

Reynir Grétarsson, aðaleigandi Gavia Invest, ætlar ekki aftur að bjóða sig fram til stjórnar Sýnar þegar kosið verður á ný í næstu viku. Reynir náði ekki kjöri er kosið var fyrr í haust.

Sýn þurfi að bæta reksturinn „enn meira til að skila ásættanlegri“ afkomu

Þótt tekjur Sýnar hafi verið að aukast og stjórnendur séu að ná betri tökum á rekstrarkostnaði fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins þá er ljóst að það þarf að bæta reksturinn „enn meira til að félagið skili ásættanlegri“ afkomu, að sögn hlutabréfagreinenda, sem mælir með því að fjárfestar haldi bréfum sínum í félaginu að svo stöddu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.