Viðskipti innlent

Fjögur hundruð milljóna gjaldþrot verktaka

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
WN ehf sá um niðurrif á Dalbraut 6 á Akranesi þar sem rísa íbúðir fyrir aldraða.
WN ehf sá um niðurrif á Dalbraut 6 á Akranesi þar sem rísa íbúðir fyrir aldraða.

Engar eignir fundust í þrotabúi verktakafyrirtækisins WN ehf. Um er að ræða annað verktakafyrirtækið sem fer í gjaldþrot hjá Þorsteini Auðunni Péturssyni á tveimur árum. Hann var á dögunum dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir skattsvik.

WN ehf var stofnað árið 2005 en tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember síðastliðnum. Fyrirtækið hefur meðal annars verið nokkuð stórtækt í niðurrifi á höfuðborgarsvæðinu.

Lýsta kröfur í þrotabúið námu um 434 milljónum króna en engar eignir fundust í búinu. Kröfuhafar fá því ekkert fyrir sinn snúð að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag.

Þorsteinn var sömuleiðis í forsvari fyrir verktakafyrirtækið Work North sem var einnig stórtækt í niðurrifi. Fyrirtækið sá meðal annars um að rífa niður Sementsverksmiðjuna á Akranesi árið 2017. Raunar þótti nokkuð umdeilt að fyrirtækið fékk verkefnið á sínum tíma.

Aðgerðirnar gengu ekki áfallalaust fyrir sig.

Þorsteinn ræddi vandræðin í samtali við Fréttablaðið.  

„Við vissum að þetta væri rammgert en þegar svona fer af stað þá eru allt í einu 10 þúsund sprengjusérfræðingar til á landinu,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn var í apríl dæmdur í tólf mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir stórfelld og meiriháttar skattalagabrot í starfi hjá félaginu EB816 ehf, áður Work North ehf. Work North varð gjaldþrota árið 2020.

Hann var dæmdur fyrir að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna og sömuleiðis að standa ekki skil á virðisaukaskatti. Brotin áttu sér stað á árunum 2018-2020.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×