Innherji

„Hættan við of sam­ræmdar reglur á fjár­mála­markaði er sam­ræmið“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Seðlabankinn hefur lagt mikla áherslu á að regluverkið í kringum lífeyrissjóði verði endurskoðað og hert. 
Seðlabankinn hefur lagt mikla áherslu á að regluverkið í kringum lífeyrissjóði verði endurskoðað og hert. 

Ítrekaðar athugasemdir Seðlabanka Íslands og erlendra stofnana við stjórnarhætti lífeyrissjóða og áhættustýringu þeirra rista ekki nógu djúpt að sögn framkvæmdastjóra Birtu lífeyrissjóðs. Hann varar við því að tilraunir til að endurskoða reglur um áhættustýringu hjá sjóðunum – í því skyni að samræma regluverkið á fjármálamarkaði – geti leitt til þess að allir bregðist við áhættu á sama hátt og þannig magnað upp áhættu á markaði.

Æðstu stjórnendur Seðlabanka Íslands hafa um nokkurra ára skeið lagt áherslu á mikilvægi þess að endurskoða regluverkið í kringum lífeyrissjóði og þeir vísa jafnan til umsvifa sjóðanna og stærðar þeirra.

„Við erum með þrjá kerfislega mikilvæga banka og búið er að búa til mjög þéttan ramma í kringum þá til þess að tryggja það að það sem þeir eru að gera hafi ekki neikvæð áhrif á hagkerfið okkar. Með einhverjum hætti þarf að setja svipaðan ramma í kringum lífeyrissjóðina,“ sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundi fjármálastöðugleikanefndar í desember 2020.

Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri hefur sagt óheppilegt að lífeyrissjóðir breyttust í lánastofnanir án þess að vera með umgjörð um áhættustýringu innanhúss og þekkingu á því að vinna úr lánum þegar syrtir í álinn.

Þá hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekið undir sjónarmið Seðlabankans eins og kom fram í áliti sendinefndar AGS sem lagði mat á stöðu efnahagsmála hér á landi í vor. „Fjármálaregluverkið er fullnægjandi á heildina litið en efla þarf rammann í kringum lífeyrissjóði,“ sagði í álitinu.

En þrátt fyrir ítrekuð ummæli í þá veru er ekki ljóst hvernig Seðlabankinn vill breyta regluverkinu. Í ritinu „Stefnumarkandi áherslur við eftirlit á fjármálamarkaði 2022-2024 kemur þó fram að áfram þurfi „að vinna að uppbyggingu áhættustýringar hjá lífeyrissjóðunum“ auk þess sem leggja þurfi áherslur á „heilbrigða áhættumenningu“ innan þeirra. Engar nánari útskýringar fylgdu með.

Hættan við of samræmdar reglur á fjármálamarkaði er samræmið, að allir bregðast við áhættu á sama hátt, sem magnar þá upp áhættuna

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, segir að allir geti tekið undir almenna umræðu um bætta stjórnarhætti og áhættumenningu en hefur áhyggjur af því að samræmdar reglur í fjármálakerfinu, einkum hvað varðar áhættustýringu, geti haft þveröfug áhrif.

„Miðstýrð og einsleit kerfi geta orðið fyrir gífurlegu áfalli ef forsendurnar reynast rangar og allir bregðast við áhættuþáttum á sama hátt. Þegar Veðurstofan gefur út gula viðvörun breytir viðbragð landsmanna engu um veðrið, lægðin gengur einfaldalega yfir enda er áhættan ytri stærð. Ef banki fær gula viðvörun hlaupa margir til og áhættan vex við hverja úttekt, áhættan er innri stærð sem breytist með viðbragði okkar. Hættan við of samræmdar reglur á fjármálamarkaði er samræmið, að allir bregðast við áhættu á sama hátt, sem magnar þá upp áhættuna,“ segir Ólafur.

Lífeyrissjóðir eru að mörgu leyti ólíkir öðrum fjármálastofnunum, sér í lagi þegar litið er á skuldahliðina þar sem skuldbindingarnar eru til langs tíma. Áhættustýring lífeyrissjóða má því ekki snúast um dagslokagengið á markaði eða 90 daga mælikvarða á áhættudreifni eignasafnsins að sögn Ólafs.

„Við þurfum að forðast sveiflumagnandi reglur sem hverfast um markaðsverð eigna og skuldbindinga, og geta þannig kallað fram samræmdar og sjálfskapaðar brunaútsölur á markaði,“ segir hann og bætir við að vinsamleg tilmæli frá stjórnvöldum geti einnig haft sveifluaukandi afleiðingar ef þau orka tvímælis.

Í byrjun árs 2020 hvatti Fjármálaeftirlit Seðlabankans lífeyrissjóði til að íhuga vandlega, seinka eða hætta við ákvarðanir eða viðskipti sem gætu stefnt í tvísýnu langtímahagsmunum sjóðfélaga og lífeyrisþega.

„Það er eðlilegt og rökrétt að íhuga vandlega ákvarðanir þegar óvissan er mikil, en ef enginn getur eða vill taka áhættu getur það aukið áhættuna,“ segir Ólafur.

Í því sambandi nefnir hann að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) hafi verið umsvifamikill í hlutabréfakaupum innanlands vorið 2020 og flaggað viðskiptum þegar hlutabréfaverð var í frjálsu falli. Það sé dæmi um „andstreymishegðun“ sem geti stuðlað að stöðugleika án þess að auka endilega áhættu viðkomandi sjóðs mikið.

„Mestu máli skiptir að gera lífeyriskerfið ekki of einsleitt og setja ekki reglur sem stuðla að hjarðhegðun. Ef við endum í einni allsherjar fegurðarsamkeppni á milli ára er hætt við því að enginn þori að falla á eigin forsendum og kjósi frekar að falla með fjöldanum,“ segir hann.

„Við ættum að fagna fjölbreytileikanum og kalla frekar eftir skýringum frá þeim sem hegða sér eins frekar en að eltast við frávikin. Við hjá Birtu lífeyrissjóð höfum átt í uppbyggilegum og reglulegum samskiptum við Seðlabankann um þessi mál en fundirnir eru of stuttir og umræðan ristir of grunnt. Það þarf að bretta upp ermar og koma þessari umræðu upp á yfirborðið og dýpka hana. Það er ekki hægt að sitja undir reglulegri umræðu um að gera þurfi breytingar ef engar tillögur koma fram. Það gerir lítið annað en að draga úr trausti á kerfinu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.